Viktor segir að þrátt fyrir að hafa átt besta leik lífs síns í gær sé hann nú kominn niður á jörðina. „Já, klárlega. Ég var svolítið lengi að sofna í gærkvöldi það var kannski skiljanlegt. En núna erum við búnir að kíkja aðeins á leikinn og kíkja aðeins á Króatana og bara kominn svolítill fókus á næsta leik sko.“
Fór spilamennska liðsins í gær fram úr ykkar væntingum? „Það má alveg segja það, við lögðum bara upp með að spila okkar leik og það bara heppnaðist fullkomlega. Serstaklega í fyrri hálfleik. Þetta var bara sturluð frammistaða frá öllum í liðinu. Við bjuggumst kannski ekki alveg við þessu en við bjuggumst við að stríða þeim,“ segir Viktor.
Íslenska liðið á góðan möguleika á að komast í undanúrslit eftir sigurinn í gær. Viktor segir þó að íslenska liðið ætli alls ekki fram úr sér. „Við erum bara að taka þetta einn leik í einu. Bara að fókusa á Króatana og svo Svartfjallaland sem eru búnir að vera góðir. Svo við þurfum bara að halda fókus.“
Viðtalið við Viktor má sjá í spilaranum hér að ofan. Leikur Íslands og Króatíu er á morgun kl. 14:30 og verður sýndur beint á RÚV. Upphitun hefst í EM stofunni hálftíma fyrr.