
Talibanar ræða um mannréttindi í Ósló
Þetta verður i fyrsta sinn sem þessir hópar ræðast við í öruggu umhverfi segir í frétt Norska ríkisútvarpsins. Fundir með sendifulltrúum vesturlanda eru fyrirhugaðir á morgun og á þriðjudag.
Frá því Talíbanar tóku völdin í Afganistan á síðasta ári hafa þeir lokað stúlknaskólum og neitað konum um leyfi til þess að vinna, svo fátt eitt sé nefnt. Þeir eru andvígir lýðræðislegum kosningum og ýmsu öðru sem mannréttindasamtök berjast fyrir, segir í frétt norska ríkisútvarpsins í dag.
Því má segja að þeir verji deginum nú með sínum hörðustu gagnrýnendum. Á dagskránni eru fundir með kvenréttindabaráttufólki, fulltrúum mannréttindasamtaka og afgönsku fréttafólki sem hefur flúið land. Þetta verður i fyrsta sinn sem þessir hópar ræðast við í öruggu umhverfi.
Fundirnir í dag eru sagðir ráða úrslitum um það með hverjum Talíbanar munu funda síðar í þessari fyrstu heimsókn sinni til Vesturlanda eftir valdatöku síðasta árs. Fyrir liggur að þeir munu ekki funda með utanríkisráðherra Noregs.
Amir Khan Muttaqi, utanríkisráðherra stjórnar Talíbana, fer fyrir sendinefndinni en hann hefur sagst bjartsýnn fyrir viðræðurnar og vongóður um að þær stuðli að því að bæta tengslin við umheiminn.
Búist er við því að sendinefndin fundi með evrópskum og bandarískum erindrekum á morgun. Kai Eide, Norðmaður sem var áður erindreki Sameinuðu þjóðanna í Afganistan, sagði við norska ríkisútvarpið ólíklegt að fundirnir leiði til nokkurra raunverulegra breytinga. Það sé hins vegar jákvætt að Talíbanar eigi yfir höfuð í viðræðum.