
Talibanar komnir til Oslóar
Til stendur að sendinefndin ræði við fulltrúa norskra, bandarískra og evrópskra stjórnvalda á Soría Moría hótelinu við Holmenkollen í dag og næstu daga, og að fjárhags- og neyðaraðstoð verði í brennidepli. Þá hyggjast hinir afgönsku gestir einnig hitta landa sína í Noregi að máli.
Áður eftirlýstur hryðjuverkamaður í sendinefndinni
Fimmtán manns eru í sendinefndinni, auk utanríkisráðherrans Muttaqi. Þeirra á meðal er Anas Haqqani, sem til skamms tíma var á lista Bandaríkjastjórnar yfir hryðjuverkamenn en var nýlega fjarlægður af honum og á sæti í forystusveit stjórnmálaarms talibana í Doha í Katar.
Eldri bróðir hans er Sirajuddin Haqqani, leiðtogi Haqqani-hreyfingarinnar og einn illræmdasti hryðjuverkamaður heims um langt skeið og núverandi varnarmálaráðherra og varaforsætisráðherra Afganistans. Hann er eftirlýstur víða um heim og bandarísk stjórnvöld leggja 10 milljónir Bandaríkjadala til höfuðs honum.
Haqqani-hreyfingin vann náið með al Kaída og Osama bin Laden á sínum tíma og síðar talibönum. Eru meðlimir hennar taldir hafa framið mörg af mannskæðustu hryðjuverkum sem framin hafa verið í Afganistan á síðustu 20 árum.