Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vegfarendur hvattir til að breyta ferðaplönum

22.01.2022 - 08:37
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Suðvestan stormur eða rok með snjókomu verða á vestan- og norðvestanverðu landinu fram á kvöld og gular og appelsínugular viðvaranir í gildi. Ekkert ferðaveður er milli staða og helstu fjallvegir og heiðar á þessum slóðum lokaðar vegna veðurs eða ófærðar.

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og geta vindhviður náð yfir 40 metra á sekúndu.

Klettsháls, Öxnadalsheiði, Vatnsskarð, Þverárfjall, Hálfdán, Þröskuldar, Steingrímsfjarðarheiði, Dynajndisheiði, Brattabrekka og Holtavörðuheiði eru lokaðir eða ófærir vegna veðurs.

Vegfarendur sem þurfa að komast á milli staða eru beðnir að breyta ferðaplönum.

Veðurhorfur á landinu næsta sólarhringinn

Suðvestan 15-25 m/s, hvassast norðvestantil. Allvíða él en úrkomulítið um landið austanvert. Dregur smám saman úr vindi síðdegis en bætir heldur í úrkomu á sunnanverðu landinu undir kvöld. Hiti 2 til 6 stig norðan og austantil annars um eða rétt yfir frostmarki. Kólnar víðst hvar seint í dag.

Suðvestan og vestan 10-18 m/s á morgun með éljahryðjum um landið vestanvert en áfram þurrt austantil á landinu. Frost 0 til 10 stig, kaldast í innsveitum.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV