Íslenska liðið steig stórt skref í átt að sæti í undanúrslitum með átta marka sigri á Ólympíumeisturunum 21-28. „Mér líður frábærlega, ég get eiginlega ekki lýst því því. Þetta er bara geggjað sko, þetta var besti leikur ævi minnar sko. Ég get ekki sagt mikið meira,“ segir Viktor.
Hann segir að hann hafi ekki undirbúið sig óvenju mikið fyrir þennan leik, í raun þvert á móti. „Ég undirbjó mig örugglega aðeins minna en ég er búinn að gera allt þetta mót. Í seinasta leik var ég svolítið pirraður, ósáttur með sjálfan mig og fannst þetta vera svolítið mikið af því að skoða þeirra leik. Svo ég fókusaði bara meira á minn leik í þessum leik, hvað ég ætlaði að gera og trúði á sjálfan mig,“ segir hann.
Þú sóttir greinilega mikinn kraft til áhorfenda. Hversu mikið gaf þér að hafa höllina með þér?
„Það var geggjað sko. Þótt þau voru ekki mörg þarna í stúkunni þá heyrðist vel í þeim. Það var bara geggjað að sjá Íslendingana hérna, bara sturlað sko.
Ísland mætir Króatíu í næsta leik í milliriðlinum á mánudag. Viktor segir erfitt að samherjar hans úr íslenska liðinu verði margir hverjir áfram lokaðir inni í einangrun á meðan hinir halda áfram í næsta verkefni. „Við fáum kannski tvo eða þrjá klukkutíma til að fagna þessu svo bara þegar við vöknum á morgun er það bara fókus á næsta leik,“ segir Viktor Gísli Hallgrímsson.
Viðtalið við Viktor Gísla má sjá í spilararnum hér að ofan.