Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segja Rússa ætla að koma á leppstjórn í Úkraínu

22.01.2022 - 23:56
epa09649525 Ukrainian reservists attend a military exercise at a training ground near Kiev, Ukraine, 18 December 2021 (issued 19 December 2021). According to a survey conducted by the Kiev International Institute of Sociology (KIIS) in December 2021 and published on 17 December 2021, the 50,2 percent of Ukrainians said they would resist in case of a Russian military intervention into their city, town or village. Every third respondent to the poll, the 33,3 percent, said they were ready to engage in armed resistance while the 21.7 percent said they were ready to participate in civil resistance actions . The US and Ukraine have accused Russia of amassing tens of thousands of troops along the Ukrainian border in preparation for a possible attack. Tensions with Russia have pushed many Ukrainians to sign up to territorial defense units.  EPA-EFE/SERGEY DOLZHENKO
Her Úkraínu á æfingu í desember.  Mynd: epa
Varnarmálaráðherra Breta tilkynnti í dag að varnarmálaráðherra Rússa hefði þegið boð hans um viðræður um Úkraínudeiluna á næstu dögum. Nokkrum klukkustundum síðar sendi breski utanríkisráðherrann frá sér yfirlýsingu, þar sem hún sakar stjórnvöld í Moskvu um að ætla sér að koma manni til valda í Úkraínu, sem er hliðhollur Rússum. Rússar hafa safnað allt að 100.000 manna herliði að landamærum Úkraínu og óttast er að þeir hyggi á innrás, þótt þeir þvertaki fyrir það.

Vill hitta breska varnarmálaráðherrann í Moskvu

Ónefndur heimildarmaður AFP-fréttastofunnar í breska varnarmálaráðuneytinu segir að rússneski varnarmálaráðherrann hafi þegið boð Bens Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, um að ræða stöðuna í Úkraínu.

„Þar sem síðustu tvíhliða viðræður  landanna um varnarmál fóru fram í Lundúnum 2013, þá bauðst rússneski varnarmálaráðherrann, Sergei Shoigu, til að halda fundinn í Moskvu að þessu sinni,“ hefur AFP eftir heimildarmanninum, sem segir Wallace hafa gert það öllum ljóst að hann hyggist leita allra leiða til að tryggja stöðugleika og finna lausn á Úkraínudeilunni.

Samsæriskenningar úr utanríkisráðuneytinu

Í kvöld sendi Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, frá sér yfirlýsingu þar sem hún segir ráðuneytinu hafa borist upplýsingar frá leyniþjónustunni, sem bendi eindregið til þess að Rússar leggi á ráðin um að bola núverandi Úkraínuforseta frá völdum og setja Rússlandsvin á forsetastólinn í hans stað.

Fullyrt er að nokkrir úkraínskir stjórnmálamenn sem eigi í samskiptum við rússneska leyniþjónustu „taki um þessar mundir þátt í ráðabruggi um árás á Úkraínu.“ Gekk ráðherrann svo langt að nefna fyrrverandi þingmanninn Yevhen Murayev sem líklegan lepp Kremlverja í Kænugarði. 

Frekari upplýsingar um þetta meinta samsæri er ekki að finna í yfirlýsingu Truss, segir í frétt The Guardian, og sjálfur segir Murayev þetta hina mestu firru. Hann sé á svörtum lista í Moskvu og fái ekki að ferðast til Rússlands, auk þess sem yfirvöld þar hafi lagt hald á fé í eigu fyrirtækis föður hans, sem geymt var í Rússlandi.