
Segja Rússa ætla að koma á leppstjórn í Úkraínu
Vill hitta breska varnarmálaráðherrann í Moskvu
Ónefndur heimildarmaður AFP-fréttastofunnar í breska varnarmálaráðuneytinu segir að rússneski varnarmálaráðherrann hafi þegið boð Bens Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, um að ræða stöðuna í Úkraínu.
„Þar sem síðustu tvíhliða viðræður landanna um varnarmál fóru fram í Lundúnum 2013, þá bauðst rússneski varnarmálaráðherrann, Sergei Shoigu, til að halda fundinn í Moskvu að þessu sinni,“ hefur AFP eftir heimildarmanninum, sem segir Wallace hafa gert það öllum ljóst að hann hyggist leita allra leiða til að tryggja stöðugleika og finna lausn á Úkraínudeilunni.
Samsæriskenningar úr utanríkisráðuneytinu
Í kvöld sendi Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, frá sér yfirlýsingu þar sem hún segir ráðuneytinu hafa borist upplýsingar frá leyniþjónustunni, sem bendi eindregið til þess að Rússar leggi á ráðin um að bola núverandi Úkraínuforseta frá völdum og setja Rússlandsvin á forsetastólinn í hans stað.
Fullyrt er að nokkrir úkraínskir stjórnmálamenn sem eigi í samskiptum við rússneska leyniþjónustu „taki um þessar mundir þátt í ráðabruggi um árás á Úkraínu.“ Gekk ráðherrann svo langt að nefna fyrrverandi þingmanninn Yevhen Murayev sem líklegan lepp Kremlverja í Kænugarði.
Frekari upplýsingar um þetta meinta samsæri er ekki að finna í yfirlýsingu Truss, segir í frétt The Guardian, og sjálfur segir Murayev þetta hina mestu firru. Hann sé á svörtum lista í Moskvu og fái ekki að ferðast til Rússlands, auk þess sem yfirvöld þar hafi lagt hald á fé í eigu fyrirtækis föður hans, sem geymt var í Rússlandi.