Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Mikil mannaskipti í sveitarstjórnum í vor

Mynd: Háskóli Íslands / Háskóli Íslands
Undanfarnar kosningar hefur reynst erfitt að manna sveitarstjórnir sums staðar, og jafnvel í þokkalega stórum sveitarfélögum. Eva Marín Hlynsdóttir prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands býst við að svo gæti líka farið í vor. Mannaskipti í sveitarstjórnum verði jafnvel 65%.

Eftir um fjóra mánuði, verður kosið til sveitarstjórna í um öllum sveitarfélögum landsins. Þau eru mörg og misfjölmenn, frá því minnsta með um 40 íbúa, upp í höfuðborgina með rúmlega 130 þúsund. Eva Marín bendir á að sveitarstjórnarstigið sé eitt en sveitarfélögin næstum jafn ólík og þau eru mörg.

Munurinn á pólitíkinni sem fer þarna fram, verkefnunum sem fer þarna fram og hvað hlutverk kjörnir fulltrúar hafa í þessum stjórnum, það er náttúrulega gríðarlega ólíkt. Það sem þau eiga öll sameiginlegt er að þau eru öll kjörin af almenningi beinni kosningu. 

Fyrir þingkosningarnar í haust varð mörgum á orði að ekki væri augljóst hvert væri helsta kosningamálið. Eva Marín telur síst auðveldara að greina hvert er helsta kosningamálið í sveitarstjórnarkosningum. Tenging milli sveitarstjórnarkosninga og landsmálanna sé veik. Það geti vel verið að tekist sé á um mismunandi mál í sveitarfélögum jafnvel þó að þau liggi saman. Staðbundnar aðstæður skipti gríðarlega miklu. 

Það sé því varla hægt að ganga út frá því að mönnum hefnist fyrir í héraði sem hallast á Alþingi eða að flokkar græði á því í sveitarstjórn að vera í góðum málum á þingi. Það megi heldur ekki gleyma því að í um helmingi þeirra sé ekki boðið fram undir merkjum stjórnmálaflokka eins og á landsvísu. Þetta séu fyrst og fremst staðbundnir listar eða listar sem verða til í kringum ákveðin málefni sem tengist aðstæðum á hverjum stað. 

Eva Marín segir það ekki nýtt vandamál að illa gangi sums staðar að manna sveitarstjórnir. Reglulega komi fréttir af því þegar líða fer á vetur í aðdraganda kosninga að það gangi ekkert að manna lista. Þetta gerist líka í tiltölulega stórum sveitarfélögum, þar sem jafnvel búa nokkur þúsund íbúar, en vissulega kveður rammar að þessu í þeim minni. Tölur um þetta eru ekki nákvæmar en Eva Marín vísar í skoðanakönnun sem hún lagði fyrir sveitarstjórnarmenn síðasta vetur. 

Þar bara sögðu 38% að þau ætla ekki að bjóða sig aftur fram. Það er ár síðan þessi könnun var lögð fyrir, þannig að við getum gert ráð fyrir að einhverjir hafi jafnvel bæst í þennan hóp. Síðan á eftir að bæta ofan á þeim sem í rauninni detta út einfaldlega af því þeir tapa fyrir einhverjum öðrum. Þannig að ég geri ráð fyrir því að við munum sjá aftur þessa miklu endurnýjun, sem við höfum verið að sjá síðustu skipti, upp á 50, 60, 65%. 

Þetta hefur breyst á síðustu áratugum. Upp úr 1990 var þetta hlutfall um 40% en hefur verið að síga í og yfir 60%. 

Það þýðir að sex af hverjum tíu eru nýir í hverjum einustu kosningum, segir Eva Marín. Minni samfélög standi ekki undir slíkri endurnýjun - þar sé einfaldlega ekki nógu margt fólk. Burtséð frá því þá tapist líka þekking og reynsla út úr sveitarstjórnunum þó að margir vilji endurnýjun. 

Það er líka frekar hátt endurnýjunarhlutfall hjá sveitar- og bæjarstjórum. Þannig að þegar þetta tvennt kemur saman þá getur þetta bara veikt bæði rekstur og stefnumótun sveitarfélagsins til lengri tíma litið.

Undanfarið hefur verið stefnt markvisst að stækkun og sameiningu sveitarfélaga. Eva Marín segir spurninguna um kjörstærð sveitarfélaga snúna. Nákvæm tala um hvað sé besta stærðin sé einfaldlega ekki til. Mismunandi íbúafjöldi henti mismunandi verkefnum og það skipti líka máli hve þéttbýl sveitarfélög séu. Það sé einfaldlega hentugra að reka þéttbýlt sveitarfélag sem ekki dreifist yfir stórt svæði en jafnfjölmennt sveitarfélaga sem teygi sig yfir stórt landsvæði. 

Hún telur ekki að eitt einfalt svar sé við því af hverju erfiðara sé að fá fólk til að gefa kost á sér nú en áður. Vinnuálag sé þó oft nefnt en það sé líka búið að gerbreyta sveitarstjórnarstiginu og færa þangað fjölda verkefna frá ríkinu. Framkvæmd sveitarstjórnarmála hafi orðið miklu flóknari á síðustu áratugum en ekki hafi miklu verið breytt varðandi hvernig sveitarstjórnirnar sjálfar séu skipulagðar.

Þá finni sveitarstjórnarmenn margir mjög fyrir neikvæðu umtali og áreiti, svo mjög að sumir kannski veigri sér við að gefa kost á sér eða ákveði að hætta. 

Það að hækka greiðslur til sveitarstjórnarmanna eða gera það að vera sveitarstjórnarmaður að fullri stöðu er ekki endilega lausn á mönnunarvandanum segir Eva Marín. Hærri greiðslur leysi ekki vanda vegna neikvæðs umtals og áreitis þó að þær geti í einhverjum tilfellum orðið til þess að hækka þolstig þeirra sem fyrir verða.

Hún telur ekki að launin séu aðalhvati þess að fólk fari út í sveitarstjórnarmál frekar en annað félagsstarf sem þau séu í grunninn. Áður fyrr hafi margir, ekki síst í minni samfélögum, litið á það nánast sem borgaralega skyldu að taka þátt í sveitarstjórnum en Evu Marín grunar að úr því hafi dregið, sérstaklega í stærri samfélögum. Hún veltir því líka fyrir sér hvort fólk hafi bara minna þol gagnvart álaginu nú en áður var, og sé ekki eins tilbúið að fórna öllum sínum tíma eins og fyrri kynslóðir hafi mögulega gert.