Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lögregla og Vinnueftirlit skoða sprengingar í Hvalfirði

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Guðmundsson
Þrír íbúar í Hvalfirði hafa lagt fram kærur hjá lögreglunni á Vesturlandi vegna sprengingar sem fyrirtækið Borgarvirki stóð fyrir á Grundartanga á miðvikudagskvöld.

Þetta staðfestir lögreglan í svari við fyrirspurn fréttastofu. Í svari aðstoðaryfirlögregluþjóns segir að rannsókn málsins sé á frumstigi og verði frekari upplýsingar ekki veittar að svo stöddu. 

Málið er einnig til skoðunar hjá vinnueftirlitinu. Í svari frá stofnuninni er staðfest að málið sé til skoðunar en þar segir að frekari upplýsingar verði ekki veittar sem stendur þar sem verið sé að afla gagna.

Skessuhorn fjallaði um kæruna í vikunni. Þar segir að höggið frá sprengingunni hafi að minnsta kosti náð að Brekku í Hvalfirði og suður fyrir Meðalfellsvatn í Kjós.

Óvenjulegur hvellur

Jóhanna Harðardóttir er einn íbúanna sem lagði fram kæru. Hún segir það gert vegna þess að íbúarnir telji að fyrirtækið hafi ekki farið eftir reglugerð nr. 510/2018 um sprengiefni. „Þegar ætla má að sprengivinna geti valdið íbúum í nálægri byggð ónæði skal þeim gert viðvart,“ segir í 39. grein reglugerðarinnar en ekki er útskýrt hvað telst nálæg byggð.

Að sögn Jóhönnu kom hvellurinn rétt fyrir klukkan hálf sjö að kvöldi og segir hún hann hafa verið óvenjulegan. Allt hafi hrist á heimilinu og höggbylgjan verið svakaleg. „Þetta var rosaleg sprenging og ég hef aldrei lent í slíku og þvílíku,“ segir Jóhanna.

Lögregla er að sögn Jóhönnu búin að taka skýrslu af íbúunum þremur sem lögðu fram kæru. Jóhanna hefur búið í firðinum frá árinu 2005. Síðan þá sé búið að sprengja þó nokkuð en ekkert í líkingu við sprengingu miðvikudagsins.

Vill að haft sé samband

„Þeir höfðu ekki fyrir því að hafa samband við nokkurn mann. Hvorki til að biðjast afsökunar né spyrja hvort allt væri í lagi,“ segir Jóhanna. 

Fyrri verktakar, sem Jóhanna segist ekki vita hverjir voru, hafi alltaf haft samband með um hálftíma fyrirvara og látið vita. „Það er strax hjálp í því. Það sýnir að menn eru að reyna að vinna í friði og með virðingu fyrir nágrönnum,“ segir Jóhanna.

Hljóðbært í firðinum

Pétur Ingason, forsvarsmaður hjá Borgarvirki, vildi ekki tjá sig um málið. Hann sagði í samtali við Vísi að algengt sé að slíkar sprengingar heyrist, ekki hafi verið brugðið út af vananum.

Sprengingin hafi heyrst svona vel vegna þess hve hljóðbært var í firðinum.

„Það er mjög stillt yfir og þá heyrist bara meira. Það kemur höggbylgja í loftið og svona,“ sagði Pétur við Vísi.