„Ekki sagt að það ætti að loka okkur inni í tvær vikur“

Mynd: Silla Páls / Aðsend

„Ekki sagt að það ætti að loka okkur inni í tvær vikur“

22.01.2022 - 09:00

Höfundar

„Það var rosalega heitt og þessi tilfinning, að vera frelsissviptur, er svakaleg. Maður hafði ekkert um þetta að segja,“ segir Þóra Valný Yngvadóttir stjórnandi og fjármálaráðgjafi sem fyrir tveimur árum lenti í ótrúlegu ævintýri í Víetnam. Þóra hefur verið lögð í einelti og lent í alvarlegu bílslysi þar sem einn lést, en tekst að halda í æðruleysi og lífsgleði.

Þóra Valný Yngvadóttir, stjórnandi og fjármálaráðgjafi, er ættuð úr Laxárdal á Norðurlandi, sem hún kallar fallegustu sveit landsins, og alin upp í Bárðardal. Hún er fædd 1966 en fyrstu ár ævi hennar var ekkert rafmagn í sveitinni og illa hugsað um vegina svo fólkið var nokkuð einangrað. En Þóra undi sér vel með foreldrum sínum og þremur systkinum, eignaðist eina kind á ári sem hún nefndi Dúkku og Skúffu.

Drakk spenvolga mjólk úr könnu í fjósinu

„Ég man þegar við vorum að fara út í fjós og hápunktur tilverunnar var þegar við fengum smákökur í litlar könnur sem voru með höldur sitt hvoru megin. Við löbbuðum í röð á eftir pabba út í fjós með eina smáköku hvert og settumst svo á brík við vegginn, horfðum á pabba handmjólka beint úr kúnni í könnurnar. Svo sátum við með smákökurnar okkar og drukkum spenvolga mjólkina,“ segir Þóra. Hún rifjar upp æskuna í Sunnudagssögum á Rás 2 en þar segir líka frá ótrúlegum ævintýrum sem sveitastelpan hefur lent í á heimshornaflakki sínu.

Skildi ekki að krakkarnir fengju gos í Vestmannaeyjum

Systkinin fengu aldrei gos nema á jólunum og það var alltaf hátíðleg stund. Þóra minnist þess þegar hún sat inni í bæ með móður sinni árið 1973 um sumar. Móðir hennar var að greiða á henni hárið þegar faðir hennar kom úr fjósinu og sagði: „Það er komið gos í Vestmannaeyjum!“ Móðir Þóru varð hvumsa en ekki eins hissa og Þóra sjálf sem svaraði: „Af hverju fá þau gos, það eru ekki jól?“

„Svo var ég smámælt líka sem hjálpaði enn til við eineltið“

Fjölskyldan flutti í Garðabæ á meðan Þóra var enn í grunnskóla og segir hún að bærinn hafi alls ekki tekið á móti sér af þeirri ást og alúð sem hún ólst upp við í Bárðardal, þar sem allir voru mjög góðir við hana. „Við pössuðum ekkert rosalega vel inn og maður var svolítið út úr. Svo var ég smámælt líka sem hjálpaði enn til við eineltið og það var í raun svolítið áfall því ég hafði alltaf haft það mjög gott eins og börn eiga að gera,“ segir hún. „Ég bjó við ást og alúð og allir voru vinir mínir og góðir við mig. Það voru viðbrigði að koma í skólann og það voru ekkert allir góðir við mig.“

Áttaði sig á að eineltið væri ekki sér að kenna

En eineltið situr ekki í Þóru í dag. „Ég er búin að gera þetta upp,“ segir hún. Lengi vel leit hún svo á að hún bæri sjálf á einhvern hátt ábyrgð á því en áttaði sig svo á að það væri af og frá. „Ég var lengi að hugsa að ég hefði lent í einelti því ég var smámælt eða því við vorum úr sveit, en núna veit ég að ég lenti í einelti því börn ákváðu að vera grimm. Og líka kannski vegna þess að það var hluti af samfélaginu í þá daga,“ segir hún. „Grunnskólamenning var bara þannig. Það gerir það ekki betra eða verra, það var bara þannig.“

Eignaðist vini á heimavist

Þremur árum eftir komuna í bæinn flutti fjölskyldan í Grundarhverfi í Garðabæ. Þar kynntist Þóra frábærum krökkum og eignaðist góða vini. Þau fóru út að leika á morgnana og langt fram á kvöld, héldu leiksýningar, bjuggu til brautir í snjónum til að hlaupa eftir og gerðu dyraat í hverfinu.

Svo þótti móður Þóru tímabært að hún fengi að kynnast því að vera á heimavist, fyrst systkinin voru úr sveit væri það nánast mannréttindamál að fá að upplifa hana aftur. Hún fór í Héraðsskólann á Laugavatni og naut sín vel. „Það var æðislega gaman. Ég kynntist fullt af krökkum, Sigrúnu vinkonu minni sem er enn vinkona mín í dag, og það var mjög gaman.“

Lenti í skelfilegu bílslysi þar sem drengur lést

Þegar Þóra var fimmtán ára, 20. nóvember 1981, lenti hún í skelfilegu bílslysi. Þau voru fimm saman í bíl, ungmenni úr Garðabæ, í mikilli hálku og ökumaðurinn var ölvaður. Strákarnir sem voru fram í slösuðust lítið en Þóra og vinkona hennar sem sátu aftur í meiddust. Farþegi sem sat á milli þeirra, Hermann Höskuldsson, fékk bílþakið í höfuðið og lést.

Þetta var skelfilegt áfall fyrir allan hópinn og Þóra mætti ekki til skóla í sex vikur. Það var engin áfallahjálp í boði en hún gat talað um atburðinn og sorgina við fjölskylduna og vinkonur sínar á Laugarvatni. „Þær nenntu að sitja með mér á kvöldin og ræða þetta,“ segir hún. „Svo á maður ástríka fjölskyldu og vel um mann hugsað, svo það vannst nokkuð vel úr þessu.“

Kveikti í skólabókunum en skráði sig svo í Versló

Eftir grunnskólapróf var Þóra frelsinu svo fegin að hún kveikti í skólabókunum, hélt brennu og dansaði stríðsdans. Hún fékk vinnu í lítilli matvöruverslun þar sem hlutverk hennar var meðal annars að panta inn. Hún bað eigandann um að fá að verða verslunarstjóri en hann sagði að hún þyrfti að taka verslunarpróf. Þóra ákvað þá að gefa skólabókunum annan séns og skráði sig í Verslunarskóla Íslands.

Frá ræstingum í Svíþjóð á samyrkjubú í Ísrael og diskótek á Rhodos

Eftir stúdentspróf varð útþráin gríðarleg. Þóra dró vinkonu sína með sér til Svíþjóðar þar sem hún á hálfbróður. Faðir hennar hafði kynnst sænskri konu í Bárðardal og eignaðist með henni soninn Gunnar Hinrik sem hefur alla tíð búið í Uppsölum. „Þetta var aldrei leyndarmál, við vissum alltaf af honum,“ segir Þóra um bróður sinn. Hann er fimmtán árum eldri en hún og hjálpaði henni við flutningana. Vinkonurnar unnu við ræstingar og bjuggu í Karlstad í hálft ár.

Hún fann að hana langaði enn lengra og keypti sér því miða aðra leið til Ísraels til að vinna á samyrkjubúi. Þar aðstoðaði hún við ávaxtarækt og bjó á risastóru bóndabýli með um tólf hundruð manns.

Á flótta undan lögreglunni

Hún kynntist hópi af enskum stelpum sem svo ákváðu að skipta um umhverfi og fara til Rhodos til að sóla sig og vinna. Vegna þess að Ísland var ekki í Evrópusambandinu gekk Þóru ekki eins vel að fá vinnu og ensku stelpunum. Henni tókst þó að verða sér úti um starf við að bera út miða á ströndinni fyrir nærliggjandi diskótek og segja: „Mike's disco, free drinks allt night.“ En hún þurfti stöðugt að vera á varðbergi. „Ég þurfti að passa að lögreglan myndi ekki ná mér, og í eitt skipti var ég hlaupandi um Rhodos hingað og þangað því ég hafði séð lögguna eða löggan séð mig,“ rifjar hún upp og hlær.

Viðskiptafræði í Oxford og gríðarleg stemning í Kaupþingi

Þóra flutti til Oxford á Englandi þar sem hún lærði viðskiptafræði og ílengdist í borginni í tíu ár, 1989-1999. Hún eignaðist enskan mann og vann á ferðaskrifstofu við að selja ferðir til Íslands, og síðar við fjármálaráðgjöf hjá fjármálafyrirtæki.

Svo skildi hún við mann sinn og ákvað að kíkja heim í páskafrí en fékk vinnu hjá Kaupþingi við fjármálaráðgjöf. Hún pakkaði saman búslóðinni á Englandi og flutti heim. Stemningin í vinnunni var gríðarleg og starfsfólk hélt þar til allan daginn. „Átta á kvöldin var pakkfullt bílastæðið, enginn farinn heim,“ rifjar hún upp. „Okkur fannst þetta skemmtileg vinna en þetta var óheilbrigt og guði sé lof að þessi tíska, að vera í vinnunni til átta, hefur breyst.“

Mynd með færslu
 Mynd: Þóra Valný - Aðsend
Þóra hitti Júlla fyrst þegar hún var níu ára og var skotin í honum alla tíð. Nú hafa þau verið saman í rúm tíu ár og ætla að gifta sig í maí.

„Mig hefur alla tíð langað að kyssa hann“

Svo eignaðist Þóra manninn sem hún á í dag. Hún hafði reyndar þekkt hann frá því hún var níu ára og man alltaf eftir því þegar þau hittust fyrst. Þá var fjölskyldan að flytja úr Ásgarði í Garðabæ, í Grundahverfið og á bílastæðinu fyrir utan nýju híbýlin stóð tólf ára drengur, Júlíus Ingólfsson. „Ég hafði aldrei séð hann áður en ég leit í þessu bláu augu og mig langaði að kyssa hann. Mig hefur alla tíð langað að kyssa hann, líka í öll þessi ár sem við vorum ekki saman,“ segir hún kankvís.

„Það er samband sem ég vil vera í til eilífðar“

Þau voru vinir upp frá þessu, voru saman í leikhóp í Garðabæ og héldu sambandi fram á fullorðinsár. „Ég held ég hafi sent honum jólakort allt mitt líf,“ segir hún. Árið 2009 byrjuðu þau loksins að vera saman. Þóra segir að þau séu ólík en á góðan hátt. Júlli, eins og hún kallar hann, er rólegur en ákveðinn en hún lýsir sér sem meiri skvettu. „En ég gef alveg eftir og vil virkilega vanda mig í þessum sambandi því þetta er það samband sem ég vil vera í til eilífðar,“ segir hún.

Bónorð í skemmtiferðaskipi

Júlli fór á hnén árið 2018 þegar parið var á skemmtiferðaskipi. „Sumir segja reyndar að það hafi verið svo mikill veltingur að hann hafi dottið greyið,“ segir Þóra og hlær. En þau trúlofuðu sig og ætluðu að giftast 2020 þegar þau höfðu verið saman í tíu ár. Vegna heimsfaraldurs þurfti að fresta tvisvar en ný dagsetning fyrir brúðkaupið er 7. maí 2022 á tólf ára sambandsafmæli. „Það verður uppskriftin að brúðkaupi, fyrsta brúðkaup okkar tveggja,“ segir hún spennt og hlakkar til að skarta hvíta kjólnum.

Föst í rúminu í viku í Feneyjum

Júlli og Þóra ferðast mikið og hafa svo sannarlega lent í ævintýrum. Þau ákváðu fyrir nokkrum árum að skella sér til Feneyja og vera þar í þrjá daga. Á öðrum degi kom hellidemba og þau ákváðu að leita skjóls á veitingastað. Þóra stóð svo upp til að bregða sér á snyrtinguna en á leiðinni þangað rann hún á blautum hjólastólarampi og slasaðist. Hún gat ekki stigið í fótinn fyrir sársauka og öskraði svo hátt að Júlli kom hlaupandi. „Þá sneri ökklinn öfugt,“ rifjar hún upp. Þóra hafði brotið sköflungsbeinið og var lögð inni á spítala þar sem hún dvaldi í rúma viku áður en hún komst í aðgerð.

Spilaði Uno við gamla konu á spítalanum

„Ég reyndi að halda vitinu, var bara föst í rúminu,“ rifjar hún upp. Júlli hafði ofan af fyrir sér með gönguferðum og fór í fatabúðir og matvöruverslanir og keypti kjóla og kökur fyrir konuna sína sem gat sig hvergi hrært. „En það var gömul kona þarna og við vorum orðnar miklar vinkonur þó við skildum ekkert í hvor annarri. Við spiluðum Uno öll kvöld.“

Tilkynnt um smit í flóanum

Í febrúar 2020 skelltu Þóra og Júlli sér svo ásamt vinahjónum til Víetnam. Þau fóru á siglingu í einkaferð á bát og skemmtu sér vel yfir útsýninu. Daginn eftir stóð til að fara í aðra siglingu yfir á eyju þar sem þau ætluðu að dvelja um hríð. Fararstjórinn fær þá símtal og tilkynnir þeim að það hafi greinst smit á flóanum þar sem þau voru að sigla svo þau þyrftu að fara í heilsutékk. Á þessum tíma hafði veiran ekki greinst á Íslandi og töluvert minni vitneskja var fyrir hendi um hana.

Dregin inn á herstöð með gaddavírsgirðingu

„Við bara: Bölvað vesen er það, maður vissi ekkert í hvaða átt þessi faraldur væri að fara,“ segir Þóra. Þeim var sagt að hafa engar áhyggjur, þetta myndi bara taka stutta stund og hópurinn hafði mestar áhyggjur af því að missa af fyrirætluðu sólbaði þann daginn. Þegar komið var með þau inn á herstöð með háum steyptum veggjum og gaddavírsgirðingu tóku á móti þeim vopnaðir hermenn. Þá fóru að renna tvær grímur á hópinn. Fljótt kom í ljós að ekkert yrði af sólbaði í nokkra daga. „Við förum inn í herbergi og það eina sem var þar var nýjasta útgáfan af sjúkrarúmi. Við komumst að því að þetta var gert svona en okkur var ekkert sagt að það ætti að loka okkur inni í tvær vikur. Þeir hefðu þá ekkert fengið okkur af stað.“ Síðdegisútvarpið á Rás 2 ræddi meðal annars við Þóru á meðan á dvölinni stóð.

Spiluðu Uno, grínuðust og æfðu brúðarvalsinn í fangelsinu

Hópnum var tjáð að nú myndi hann þurfa að afplána sóttkví. Til stóð að vikurnar yrðu tvær en þau dvöldu í fangelsinu í eina viku eftir að ræðismaður Íslands í Víetnam skarst í leikinn. En dvölin þessa viku var ekki sú huggulegasta. „Það var rosalega heitt og þessi tilfinning, að vera frelsissviptur, er svakaleg. Maður hafði ekkert um þetta að segja,“ segir Þóra. Á ótrúlegan hátt tókst henni þó að halda uppi jákvæðni og stuði í hópnum. „Okkur tókst að halda okkur uppi á húmornum. Við spiluðum Uno og svo bara upphófst fangelsisstemning. Við vorum að smygla dóti inn, fá sendingar, æfa brúðarvalsinn,“ segir Þóra. „Við reyndum bara að gera eitthvað okkur til skemmtunar.“

Fjárhagslegt öryggi og líkamleg hreysti

Júlla fannst dvölin í fangelsinu ekki jafn slæm og vikan í Feneyjum. „Þá þjáðist ég bara og hann var ráfandi um einn alla daga,“ segir Þóra. Hann fann ekki fyrir sama hjálparleysi í Víetnam þegar hann fékk að vera með Þóru sem þá var alla vega heil heilsu. „Við vorum heppin að vera fjögur saman í Víetnam og gera það besta úr því.“

Í dag býður Þóra upp á detox-meðferð í Hveragerði enda er hún áhugasöm um heilsurækt. Hún starfar einnig sem fjármálamarkþjálfi og segir að líkamleg heilsa og fjárhagslegt öryggi séu hluti af því að eiga gott líf.

Hrafnhildur Halldórsdóttir ræddi við Þóru Valný Yngvadóttur í Sunnudagssögum á Rás 2. Hægt er að hlýða á viðtalið í heild sinni hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Þarf alltaf einn Færeying til að redda Íslendingum“

Heilbrigðismál

Tóku klósettið og hreinlætið í eigin hendur