Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vilja banna bælingarmeðferðir

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Tólf þingmenn fimm flokka hafa lagt fram frumvarp til laga um að gera skuli svokallaðar bælingarmeðferðir að refsiverðu athæfi að viðlagðri allt að fimm ára fangelsisvist. Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar er flutningsmaður frumvarpsins ásamt ellefu þingmönnum sama flokks, Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og Flokks fólksins.

Fréttablaðið greinir frá. Bælingarmeðferðir eru það sem áður var stundum kallað afhommun, og miða að því að bæla samkynhneigð og aðrar kynhneigðir sem ekki falla að heimsmynd ákveðinna hópa, sem oftar en ekki tilheyra trúarhreyfingum.

Fréttablaðið hefur eftir Hönnu Katrínu að meðferðir sem þessar, „sem í meginatriðum byggja á því að það sé hægt að „lækna“ náttúrulega kynhneigð og kynvitund fólks,“ séu ekki studdar neinum vísindalegum rökum og beinlínis siðferðilega rangar.

Hún segir bælingarmeðferðir hafa valdið óafturkræfu tjóni á jafnt andlegti sem líkamlegri heilsu fólks sem gengið hefur í gegnum þær. Skammt er síðan meðferðir af þessu tagi voru bannaðar í Kanada, að viðlagðri refsingu.