Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tungumál í vörn - tungumál í uppreisn

Mynd: JS / JS

Tungumál í vörn - tungumál í uppreisn

21.01.2022 - 17:19

Höfundar

Samruni menningarheima og fjölbreytileiki hefur sett ótvírætt mark á bókmenntir síðustu ára og allt bendir til að svo verði áfram. Tungumálið er tæki og aðferð skáldskaparins og á tímum svo mikilla samskipta um höf og lönd verður gerjun einstakra tungumála og blöndun tungumála hraðari en ella. Af þessu höfum við haft nokkrar áhyggjur fyrir hönd okkar ástkæra ylhýra. Mun íslenskan lifa af? En við erum sannarlega ekki ein um að pæla í tungumálinu og skáldskapnum sem þau næra.

Á dögunum kom út tvöfalt hefti tímaritsins Kritiker. Um er að ræða temahefti þessa skandinavíska bókmenntatímarits sem ber titilinn Mellem sprog og mellemspro – milli mála og millimál. Ritstjórar þessa viðamikla heftis sem telur hátt í tvö hundruð blaðsíður eru þau Ana Stanicevic og Jacob Ölgaard Nyboe. Ana fæddist í Serbíu þar sem hún fékk snemma áhuga á norrænni menningu. Hún stundaði háskólanám í skandinavískum fræðum við háskólann í Belgrad. Lærði síðan norsku í Noregi og íslensku við háskóla Íslands og kenndi síðar íslensku sem annað mál. Hún stundar nú doktorsnám í meningarfræðum við Háskóla Íslands auk þess að sinna ýmsum verkefnum á norrænum vettvang eins og þessari ritstjórn Kritiker auk þess sem hún þýðir norrænar bókmenntir yfir á serbnesku og skrifar ljóð undir skáldnafninu Ana Mjallhvít Drekadóttir. Jacob Ölgaard Nyboe er doktor í dönskum samtímabókmenntum og hefur rannsakað norrænar bókmenntir og tungumál. Hann kennir nú dönsku við Menntaskólann á Akranesi og er stundakennari við Háskóla Íslands. 

Þau Ana og Jacob fylgja Kritikerhefti sínu úr hlaði með inngangi og kynningu  á efni þess og höfundum og segja um tilgang heftisins:  

Það var ósk okkar með þessu temahefti að skoða tungumálið í öllum sínum kimum og tengsl þess við umhverfið og heiminn, gaumgæfa sérstaklega jaðarinn og þær furðulegu aðstæður sem þeir sem nota viðkomandi tungumál geta lent í. Við vildum gefa ljóðrænni tjáningu með notkun margra tungumála og/eða millimála gaum sem og tjáningu án tungumáls. Okkur langaði að rannsaka móðurmál af kærleik en líka krítískt og skoða afstöðuna sem í því birtist gagnvart tilbrigðum eins og málýskum og sérkennum nýrra málnotenda. Hvernig það er að skrifa á öðru tungumáli en móðurmáli sínu eða að skrifa á fleiri en einu tungumáli samtímis og hvernig það er að skrifa á móðurmáli sem ekki á sér ritmál.

Einnig segjast þau Ana og Jacob í innganginum vera áhugasöm um  sprungur í tungumálinu og margbreytilega víxlverkun tungumáls, mynda og hljóða. Og það gera þau sannarlega í heftinu er að finna ljóð, greinar og ritgerðir á ótal formum eftir 24 höfunda, skálda jafnt sem fræðafólks frá ýmsum löndum. Mörg þessara höfunda og skálda upprunin í löndum fjarri Norðulöndunum en búa, miðla og dreifa skáldskap sínum þar og/eða skrifa um efni tengt Norðurlöndunum. Í flestum tilvikum er um að ræða hreinan skáldskap en einnig margvíslegar hugleiðingar um tungumálið, eðli þess og þær umbreytingar sem eiga sér stað í tungumálinu og með því á 21. öldini 

Þannig má í heftinu finna myndljóð og konkretljóð eftir ýmsa höfunda sem og greinar og ritgerðir á mörkum skáldskapar og fræðilegrar umfjöllunar. Nokkur þekkt skáld eins og Daninn Morten Söndergaard, Norðmaðurinn Öyvind Rimbereid og hins sænska Olivia Bergdahl voru sérstaklega beðin um að birta ljóð í heftinu sem skyldi uppfylla þau skilyrði að vera í fyrsta lagi þrjár síður að lengd; innhalda orðið norður; að víkja í að minnsta kosti í einni línu ljóðsins frá stöðluðum viðmiðum viðkomandi ritmáls og að í einni og sömu línu skyldu koma fyrir öll sértákn ritmálsins eins og å,ö eða ä. 

Tvö íslensk skáld eiga efni í þessu tvöfalda hefti tímaritsins Kritikar, þau Fríða Ísberg og Óskar Árni en einnig og Angela Rawlings sem óyggjandi er hluta af íslenskri samtímaljóðlist.  

Þá er einnig að finna heftinu áhugaverðar greinar um þýðingar, um kynjun tungumálsins og um uppreisn frumbyggja í og með tungumáliu í bókverkum sínum en sænska fræðikonan Eva Wissting fjallar í heftinu um afar sérstök útgáfuverk tveggja höfunda af frumbyggjaættum á ólíkum stöðum.  Þetta eru annars vegar samíska fræðikonan og blaðamaðurinn Elin Anna Labba og bók hennar Herrarna satte oss hit (Herrarnir settu okkur niður hér) og hins vegar Leanne Betamosake Simpson sem er af frumbyggjaættum indíána á Ontariosvæðisins í Kanada og bók hans Islands of Decolonial Love: Stories & Song (Eyjar afnýlenduvæddrar ástar: sögur og söngvar). Báðir þessir höfundr beita í verkum sínum, hvort með sínum hætti tungumálinu sem baráttutæki gegn þeirri kúgun sem ættfólk þeirra og tunga hefur mátt þola í gegnum aldirnar. Bækurnar eru báðar skrifaðar á tungumálum þeirra sem ráða viðkomandi landsvæðum, samfélagi og menningu, þ.e.a.s. annars vegar á sænsku og hins vegar ensku og báðir höfundarnir nýta nýt form útgefinna bóka til hins ýtrasta. Bækur þeirra koma t.a.m. einnig út sem rafbækur og textar Simpsons og tónlist er aðgengilegt á youTube. 

Tímaritið Kritiker hóf göngu sína árið 1918 og hefur í gegnum tíðina borið ýmis nöfn. Tungumál tímaritsins hafa lengst af verið sænska, danska og norska en einnig hafa þar birst greinar og skáldskapur á öðrum tungumálum Norðurlandana eins og íslensku, finnsku og færeysku en þá líka í þýðingum. 

Rætt var Önu Stanicevic í þættinum Orð um bækur 17. janúar 2022. Hlusta má á lengri gerð viðtalsins hér að ofan.