Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Telur óþarft að bíða gagna og vill létta á takmörkunum

Mynd: RÚV / RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, segir óþarft að bíða frekari gagna um þróun faraldursins og vill létta á samkomutakmörkunum.

Sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í vikunni að hann hyggist ekki senda tillögur um breytingar á sóttvarnaaðgerðum til heilbrigðisráðherra fyrr en um næstu mánaðamót. 

Hlutfallslega mun færri þurfa að leggjast inn á sjúkrahús af völdum omíkron-afbrigðisins, sem nú er ráðandi, en af fyrri afbrigðum kórónuveirunnar. Álagið á spítalanum er auk þess minna, þar sem veikindin eru sjaldnast eins alvarleg. Þá eru börn í meirihluta þeirra sem nú greinast með sjúkdóminn, en alvarleg veikindi af völdum omíkron eru mjög fátíð meðal barna. 

Ræða þurfi afléttingar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vísindaráðherra segir tímabært að ræða afléttingar á sóttvarnaaðgerðum. „Við tökum stundum hraðar ákvarðanir til að herða og þá má líka taka hraðar ákvarðanir til að ganga til baka. Það þurfa ekki að liggja fyrir gögn og aukin gögn og bíða eftir þeim til þess að aflétta, heldur þurfa að vera gögn hverju sinni til þess að viðhalda takmörkunum áfram.“

Ekki hefur verið eining innan raða ríkisstjórnarinnar með viðbrögðin við faraldrinum og fleiri úr röðum Sjálfstæðisflokksins hafa bent á að tímabært sé að breyta um kúrs í ljósri breyttrar stöðu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, hefur til að mynda talað fyrir þessu.

Áslaug Arna segir að taka þurfi tillit til íþyngjandi áhrifa sóttvarnaaðgerða á samfélagið. „Ef við værum takmarkalaust samfélag í dag og veiran með þessum tölum og þessari innlagnatíðni kæmi á íslenskt samfélag í dag, hefðum við lagaheimild til þess að ganga eins langt og við erum í takmörkunum í dag?“