Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Talibanar væntanlegir til Noregs

21.01.2022 - 16:07
Erlent · Afganistan · Asía · Noregur · Talibanar · Evrópa · Stjórnmál
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Björgvinsson - RÚV
Sendinefnd afganskra talibana er væntanleg til Noregs um helgina. Á dagskrá eru viðræður við sendimenn erlendra ríkja um mannréttindi í Afganistan og mannúðaraðstoð vegna síversnandi ástands í landinu.

Þetta er fyrsta opinbera heimsókn talibana til Vesturlanda frá því að þeir náðu völdum í Afganistan í ágúst síðastliðnum. Í sameiginlegri tilkynningu norskra og afganskra stjórnvalda segir að talibanar eigi fund með norskum stjórnvöldum og sendimönnum frá öðrum vestrænum ríkjum, þar á meðal Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Bandaríkjunum. Evrópusambandið tekur einnig þátt í viðræðunum.

Norskir fjölmiðlar hafa eftir Anniken Huitfeldt utanríkisráðherra að stjórnvöld hafi afar miklar áhyggjur af erfiðleikunum sem afganska þjóðin glímir við. Hungur blasi við milljónum og ástandið í mannúðarmálum versni stöðugt. Alþjóðasamfélagið verði að koma fólkinu til aðstoðar. Á móti verði talibanar að taka mark á kröfum um að mannréttindi séu virt í Afganistan, ekki síst réttindi kvenna.

Anniken Huitfeldt segir að með því að taka á móti sendinefnd talibana sé ekki verið að viðurkenna þá sem réttmæta stjórnendur landsins. Pólitísk deilumál megi ekki verða til þess að þjóðin svelti.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að 23 milljónir Afgana eða 55 prósent þjóðarinnar líði skort. Þörf sé á fimm milljörðum dollara frá samfélagi þjóðanna til að koma í veg fyrir að fólkið verði hungurmorða.