Svíar voru með 2 stig í riðlinum eftir sigur á Rússlandi í gær. Pólverjar voru án stiga, en þeir töpuðu stórt gegn Noregi í gær, 42-31.
Svo virtist sem það tap hafi setið í pólska liðinu því það sá aldrei til sólar í þessum leik. Svíar byrjuðu leikinn miklu betur og komust í 10-5 um miðbik fyrri hálfleiksins, staðan í hálfleik var svo 14-6.
Seinni hálfleikurinn var svo meira af því sama og skipti engu máli hversu mikið Svíarnir hreyfðu liðið sitt, Pólverjar virkuðu ráðalausir bæði sóknar- og varnarlega. Svo fór að leiknum lauk með stórsigri Svía 28-18.
Svíar því komnir í fjögur stig í milliriðlinum en Pólland úr leik.