Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Svíar fóru illa með lánlausa Pólverja

epa09700537 Players of Sweden celebrate winning the Men's European Handball Championship main round match between Poland and Sweden in Bratislava, Slovakia, 21 January 2022.  EPA-EFE/MARTIN DIVISEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Svíar fóru illa með lánlausa Pólverja

21.01.2022 - 16:50
Svíþjóð og Pólland áttust við í milliriðli 2 á Evrópumótinu í handbolta í dag. Svíar voru í góðri stöðu að blanda sér í baráttuna um sæti í undanúrslitum og að sama skapi var þetta síðasta von Póllands á að koma sér í toppbaráttu í milliriðlinum. Það var ljóst nokkuð snemma í hvað stefndi og fóru Svíar afskaplega létt með pólska liðið í dag.

Svíar voru með 2 stig í riðlinum eftir sigur á Rússlandi í gær. Pólverjar voru án stiga, en þeir töpuðu stórt gegn Noregi í gær, 42-31.

Svo virtist sem það tap hafi setið í pólska liðinu því það sá aldrei til sólar í þessum leik. Svíar byrjuðu leikinn miklu betur og komust í 10-5 um miðbik fyrri hálfleiksins, staðan í hálfleik var svo 14-6.

Seinni hálfleikurinn var svo meira af því sama og skipti engu máli hversu mikið Svíarnir hreyfðu liðið sitt, Pólverjar virkuðu ráðalausir bæði sóknar- og varnarlega. Svo fór að leiknum lauk með stórsigri Svía 28-18.

Svíar því komnir í fjögur stig í milliriðlinum en Pólland úr leik.