
Smitum fjölgar enn eftir nærri viku af hertum aðgerðum
Ný reglugerð heilbrigðisráðherra tók gildi fyrir tæpri viku. Samkvæmt henni mega 10 koma saman og veitinga- og skemmtistöðu eru settar þröngar skorður. „Ég held að staðan sé einfaldlega þannig að það er óhjákvæmilegt að grípa til þessara herðinga,“ sagði forsætisráðherra við það tilefni. Heilbrigðisráðherra sagði ástandið á Landspítala alvarlegt.
Sóttvarnalæknir hefur sagt að það taki yfirleitt viku til tíu daga til að sjá áhrif af aðgerðum koma fram. Takmarkið sé að ná smitum niður í 500 en enn virðist langt í land með að því markmiði verði náð.
Vel yfir þúsund smit hafa greinst á hverjum degi frá því að aðgerðir voru hertar og í gær voru þau 1.456. Af þeim voru 56 prósent í sóttkví. Aldrei hafa jafn margir verið í sóttkví eða einangrun, um 24.500 sem jafngildir sjö prósentum þjóðarinnar.
Jákvæðu tíðindin eru að þrátt fyrir þennan mikla fjölda smita síðustu daga hefur staðan á Landspítalanum lítið breyst. Nú liggja 35 á sjúkrahúsi og áfram eru þrír í öndunarvél á gjörgæsludeild spítalans.
Fram kemur í smittölum dagsins á covid.is að 211 hafi greinst á landamærunum sem er líka með því mesta.