Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Kennarar vilja fá greitt - sveitarfélög segja nei

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður félags grunnskólakennara, í fréttum 27. ágúst 2020.
 Mynd: RÚV
Samband íslenskra sveitarfélaga hafnar kröfu Félags grunnskólakennara um að greiða kennurum útkall samkvæmt kjarasamningi fyrir smitrakningu. Félagið er þegar með tvö mál gegn sveitarfélögunum fyrir félagsdómi tengd covid-vinnu. Formaður Félags grunnskólakennara segir útkallsgreiðslur líka enda fyrir dómi, takist ekki að semja. 

Smitrakning og hraðpróf ekki vinna

Kjarasvið Samband íslenskra sveitarfélaga segir í yfirlýsingu í gær að Félag grunnskólakennara haldi því fram að samkvæmt ákvæðum kjarasamnings um útkall eigi kennari sem fær upphringingu frá skólastjóra um kvöld eða helgi, þar sem kennarinn er beðinn um aðstoð við smitrakningu, rétt á greiðslum. Þá krefjist félagið þess að kennarar, sem beðnir eru af skólastjóra um að fara í hraðpróf, fái útkallsgreiðslur. 

Kjarasviðið segir að ekki þurfi að greiða kennurum útkall vegna símtala, óháð því hvort neyðarstig almannavarna standi yfir. Skólastjórnendur séu að sinna verkefni sem sóttvarnayfirvöld hafa falið þeim og sem dæmi teljist smitrakning á hendi sóttvarnayfirvalda en ekki vinnuveitanda. Þá vísar kjarasviðið í yfirlýsingu sinni til góðrar samvinnu í baráttu við covid og að nauðsynlegt sé að sú samstaða sem verið hefur, haldi áfram. 

Úrelt að útkall skuli bara vera þegar farið er á vinnustað

Árið 2003 féll dómur í Félagsdómi um útkall og þar segir að samkvæmt kjarasamningi eigi útkall aðeins við um vinnu sem feli í sér að starfsmaður þurfi að fara á vinnustað. 

„Í þessum dómi er mjög sérstök niðurstaða um það að þú sért ekki í vinnunni nema að þú sért á einhverjum tilteknum vinnustað. Þetta er úrelt og þá sérstaklega á covid tímum,“ segir Þorgerður Laufey Diðriksdóttir formaður Félags íslenskra grunnskólakennara.

Ekki annað að gera en að vísa til Félagsdóms

Félagsdómur er nú með til meðferðar tvö mál frá félaginu. Annað er um yfirvinnu kennara á neyðarstigi frá því á síðasta ári og hins vegar um fjarkennsluálag. Félagið segir að samkvæmt kjarasamningi eigi kennarar rétt á 50% álagi í fjarkennslu. Þorgerður vonar að í þessu máli náist niðurstaða án aðkomu dómstóla. 

„Ef ekki er hægt að ná niðurstöðu um það eins og mér sýnist á bréfinu sem þeir sendu á alla launagreiðendur í gær um það að þeir höfnuðu því að kennarar fengju greitt fyrir þá vinnu sem þeir eru sannanlega búnir að leggja af mörkum nú þá er ekkert annað að gera heldur en að ganga erinda með það má í félagsdóm.“