Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fær 11 milljónir í bætur fyrir 7 mánaða gæsluvarðhald

21.01.2022 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Landsréttur hækkaði í dag miskabætur til pólsks karlmanns, sem búsettur er hér á landi, en hann sat sjö mánuði í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hann tengdist umfangsmiklu fíkniefnasmygli. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninum tæpar fjórar milljónir í bætur en Landsréttur hækkaði þá upphæð upp í 11 milljónir.

Maðurinn var handtekinn ásamt þremur öðrum þegar tollverðir fundu talsvert magn af amfetamínbasa í bíl sem kom til landsins með Norrænu fyrir nærri fimm árum.  Mennirnir fjórir voru allir úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Maðurinn var síðan ákærður fyrir að hafa undirbúið komu hinna þriggja, leiðbeint þeim við dvöl þeirra og útvegað þeim gistingu og bílskúr til að fjarlægja efnið úr bílnum. 

Hann var hins vegar sýknaður þar sem ósannað var að hann hefði vitað af fíkniefnunum í bílnum. Hann hafði þá setið sjö mánuði í gæsluvarðhaldi, þar af 28 daga í einangrun. 

Hann krafðist þess að íslenska ríkið greiddi honum 41 milljón í bætur og reisti kröfu sína meðal annars á því að hann hefði verið sviptur frelsi sínu með ólögmætum hætti.

Í vottorði sem hann lagði fram frá sálfræðingi sínum sagði meðal annars að hann glímdi við svefnvandamál, upplifði kvíða án tilefnis, fyndi fyrir stressi og væri oft leiður. Samskipti við fjölskyldu og vini hefðu versnað verulega og hann misst fyrirtæki sitt, íbúð og og fjármuni á meðan hann dvaldist í fangelsi.

Hann hefði heldur ekki getað æft þá íþrótt sem hann hefði lagt stund á. Það hefði verið mjög átakanlegt og ógnvekjandi fyrir hann að dvelja í fangelsi. 

Verjandi mannsins vísaði máli sínu til stuðnings til nýlegra dóma í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. 

Landsréttur segir í dómi sínum að fordæmisgildi þeirra dóma sé takmarkað. Þetta væru einstök mál sem hefðu lotið að bótarétti vegna frelsissviptingar og sakfellingar að ósekju í máli sem hefði litað líf viðkomandi frá því að þeir voru bendlaðir við það á áttunda áratug síðustu aldar.

Var ríkið því dæmt til að greiða manninum tæpar 11 milljónir að frádregnum fimm milljónum sem maðurinn fékk í lok árs 2020.