Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkós, greindist nýverið með COVID-19, öðru sinni, en veiktist lítið og hefur náð sér að fullu. Mynd: epa
Yfir 60.000 manns greindust með COVID-19 í Mexíkó síðasta sólarhringinn, fleiri en nokkru sinni fyrr á einum degi. Þetta kemur fram í tilkynningu mexíkóskra heilbrigðisyfirvalda.
Omíkron-afbrigði kórónuveirunnar hefur valdið mikilli fjölgun smita í Mexíkó eins og mörgum löndum öðrum upp á síðkastið og samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu greindust þar 60.552 með COVID-19 í gær. Þar með eru smitin farin að nálgast 4.5 milljónir í Mexíkó frá upphafi faraldursins og dauðsföllin eru orðin rúmlega 302.000.
Eins og víðast hvar annars staðar þar sem omíkron-afbrigðið hefur skotið upp kollinum hefur dauðsföllum fjölgað hlutfallslega mun minna en smitum.