Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Börn innilokuð alein í herbergi í sóttkví eða einangrun

20.01.2022 - 09:35
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Umboðsmaður barna segir að dæmi séu um að börn þurfi að vera innilokuð ein í herbergi í sóttkví eða einangrun. Sum hafi ítrekað þurft að fara í sýnatöku vegna covid.

Um átta þúsund börn voru fjarverandi úr skólum landsins í síðustu viku vegna faraldursins. Salvör Nordal, umboðsmaður barna, segir að þetta geti haft mjög slæm áhrif á líf og líðan barna.

Umboðsmanni barna hafi borist fjölmargar ábendingar um áhrif kórónuveirufaraldursins á börn. Dæmi séu um að börn fari ítrekað í sýnatökur og sóttkví og sum börn þurfi að vera ein í sóttkví eða einangrun.

„Við höfum heyrt af því að börn séu jafnvel ein í sóttkví, þurfi að vera ein í herbergi fyrir utan fjölskylduna. Fólk býr líka mismunandi og aðstæður fólks eru ólíkar,“ segir Salvör. „Og margar fjölskyldur eru búnar að fara mörgum sinnum í sóttkví með börnin sín og þetta auðvitað hefur gríðarleg áhrif á þeirra líf. Faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á líf barna,“ segir Salvör.   

Áhrifin séu margvísleg. „Á skólagöngu, skerta skóladaga, minni tómstundir og jafnvel engar á tímabili, skert félagsstarf og svo framvegis,“ segir Salvör. Ástandið hafi sjaldan verið eins slæmt og nú. „Þetta er að hafa gríðarleg áhrif á börn og kannski sérstaklega höfum við áhyggjur af menntun barna.“

Þetta sagði Salvör í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2. Hún segir mikilvægt að allar ákvarðanir stjórnvalda séu metnar út frá áhrifum þeirra á börn og tekur sem dæmi sýnatökur vegna covid, sem hafi reynst mörgum börnum íþyngjandi. 

Sýnatökum barna, átta ára og yngri, var breytt í kjölfar ábendingar frá umboðsmanni og nú þurfa þau börn ekki lengur að undirgangast nefholssýnatökur, einungis úr munnholi.