Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Heimila útiveru í einangrun og létt á reglum um smitgát

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Heilbrigðisráðherra hefur staðfest nýja reglugerð þegar kemur að takmörkunum vegna COVID-19. Annars vegar verður krafa um sýnatöku í tengslum við smitgát afnumin, og takmörkuð útivera heimiluð einstaklingum í einangrun.

Breytingarnar eru gerðar í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Þar kemur fram að af nærri 16.500 einstaklingum sem sættu smitgát á fyrstu 16 dögum ársins greindist aðeins 1% með covid í í kjölfar prófs. 

Hjá þeim einstaklingum sem rakningarteymi almannavarna telur að útsetning vegna smits hafi verið óveruleg, gildir nú að smitgát stendur yfir í sjö daga og ekki er skylt að fara í hraðpróf í upphafi eða við lok hennar. Ef einstaklingur í smitgát finnur fyrir einkennum skal viðkomandi fara í PCR-próf. Þeir sem eru í smitgát mega sækja vinnu, skóla og sinna erindum en þurfa að sýna aðgát.

Varðandi einstaklinga í einangrun, hefur frá upphafi verið heimilt að fara út á svalir eða í einkagarð við heimili ef heilsa leyfir. Nú verður hins vegar leyfilegt að fara í gönguferð í nærumhverfi heimilis, ef heilsa leyfir. Halda þarf tveggja metra fjarlægð frá öðrum vegfarendum og ekki má fara á fjölsótt svæði. Miðað er við tvær gönguferðir á dag, að hámarki 30 mínútur í senn.

Tekið er fram að ekki sé unnt að bjóða fullorðnum sem eru í einangrun í sóttvarnahúsum útiveru, en slíkt verður í boði fyrir börn.