Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fyrrverandi framkvæmdastjóri ASÍ aðstoðar Guðmund Inga

19.01.2022 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumkarkaðsráðherra hefur ráðið þau Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur og Ólaf Elínarson sem aðstoðarmenn sína. Guðrún var meðal annars framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands en Ólafur hefur starfað hjá Gallup frá 2007, sem viðskiptastjóri og síðar sviðsstjóri.

Tilkynnt er um ráðninguna á vef stjórnarráðsins í dag. Guðrún Ágústa hefur þegar tekið til starfa.

Guðrún Ágústa var bæjarfulltrúi Vinstri-grænna í Hafnarfirði 2006 til 2015 og bæjarstjóri 2012 til 2014. Hún hætti í bæjarstjórn 2015 og varð þá framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands og gegndi því starfi til 2020. Hún lauk diplómanámi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands í fyrra.

Ólafur hefur kennt við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík frá 2002 og situr í stjórn UN Women. Hann var ráðinn viðskiptastjóri hjá Gallup 2007 og sviðsstjóri markaðsrannsókna 2017. Ólafur hefur störf í ráðuneytinu á næstunni.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV