Endurvakti rúntinn á Akranesi og fyllti göturnar

Endurvakti rúntinn á Akranesi og fyllti göturnar

19.01.2022 - 10:45

Höfundar

Það er öskursungið, spjallað og slúðrað á rúntinum segir Skagamaður sem tók upp á því að fylla göturnar og endurvekja rúntinn á Akranesi.

„Þetta er grín sem byrjaði fyrir akkúrat ári síðan, 2021 þrettánda janúar. Það hefur alltaf verið rík rúntmenning hér á Akranesi og var náttúrulega meiri í gamla daga. svo var þetta svo stórt í fyrra og ég hugsaði að það yrði fyndið að gera þetta aftur. Sem að greinilega það er, því það eru mjög margir mættir hér í kvöld,“ segir Alexander Aron Guðjónsson.

Göturnar á Akranesi eru þéttsetnar; gamli rúnturinn er endurvakinn í eitt kvöld að frumkvæði Alexanders. 

En rúnthringurinn er ekki hvaða hringur sem er, líkt og flest þau sem koma úr bæjarfélögum þar sem rúnturinn er eða var iðkaður þekkja. 

„Förum hérna Skólabraut, Kirkjubraut, tökum U-beyju hjá gamla pósthúsinu. Förum síðan niður Kirkjubraut, niður Skólabraut og svo aðra U-beygju hjá Hinna rakara. Það er rúnthringurinn á Akranesi,“ útskýrir Alexander. 

„Ég vissi ekki að þetta héti Skólabraut fyrr en fyrir stuttu síðan því þetta hét bara rúnthringurinn.“

Fyrst og síðast segir hann þetta snúast um stemmninguna.

„Keyra um, fá sér ís, vera með vinum sínum að hlusta á tónlist. Öskursyngja, spjalla, slúðra. Bara stemmning.“ 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Rúnturinn: Minnisvarði um deyjandi menningarfyrirbæri