Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Aðeins eitt farsóttarhús utan Reykjavíkur

19.01.2022 - 09:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Á Akureyri er eina farsóttarhúsið á landinu utan höfuðborgarinnar. Fyrir um þremur mánuðum þurfti að skipta um húsnæði til að anna eftirspurninni þar. Ásóknin er þó hlutfallslega minni en á höfuðborgarsvæðinu.

Farsóttarhúsið á Akureyri sprengdi utan af sér

Fyrir um þremur mánuðum flutti farsóttarhúsið á Akureyri sig um set í bænum, þar sem þáverandi húsnæði var orðið of lítið. Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsanna, segir að nú séu 19 herbergi til umráða fyrir smitaða á hótelinu á Akureyri. 

„Við erum með 11 gesti þar akkúrat núna. Við erum þar líka svo sem eins og hérna í bænum, þá eigum við hauk í horni og getum opnað annað hús með mjög stuttum fyrirvara. Við vorum með lítið gistiheimili á Akureyri sem við vorum farin að sprengja utan af okkur. Þannig að við færðum okkur um set, í stærra hótel,“ segir Gylfi.

Stærstur hluti Íslendingar

Gylfi segir að farsóttarhúsið á Akureyri hafi verið nýtt talsvert, þó hlutfallslega minna en húsin í Reykjavík. Fleiri ferðamenn á suðvesturhorninu gætu skýrt muninn.

„Það er hérna kannski aðeins stærra hlutfall Íslendinga, sem eru á Akureyri og hafa verið á Akureyri hjá okkur heldur en hérna í bænum. Eins og staðan er núna erum við með meirihluta Íslendinga í öllum húsum.“

Farsóttarhús var á Egilsstöðum

Ekki hefur þótt ástæða til að opna farsóttarhús annars staðar á landinu í þessari bylgju, þrátt fyrir mikinn fjölda smita um allt land.

„Við höfum verið með opið á Egilsstöðum, það var í sumar á meðan Norræna gekk. Eftir það hefur ekki komið upp sú staða að við höfum þurft að opna hús til lengri tíma á stöðum. Við höfum leiðbeint svona með skammtímalausnir úti á landi, en hingað til höfum við ekki þurft að opna farsóttarhús til lengri tíma annars staðar en á Akureyri,“ segir Gylfi.