Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

3 smit í íslenska hópnum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

3 smit í íslenska hópnum

19.01.2022 - 20:25
HSÍ greinir frá því í kvöld að þrír leikmenn íslenska hópsins á EM í handbolta hafi greinst smitaðir af Covid-19. Þeir eru allir farnir í einangrun en sýna lítil einkenni.

Leikmennirnir þrír eru Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson og Ólafur Andrés Guðmundsson. Allt íslenska liðið fer daglega í skimun vegna smits og komu smitin þrjú fram við hraðpróf í morgun og PCR-próf staðfestu svo niðurstöðuna undir kvöld.

Til að fá aftur að koma til móts við íslenska hópinn þurfa þeir að vera fimm daga í einangrun og skila svo tveimur neikvæðum PCR-prófum. 

Í tilkynningu HSÍ segir að ekki verði kallað á nýja leikmenn í íslenska hópinn að svo stöddu. 20 leikmenn eru í íslenska hópnum í Ungverjalandi og mega 16 taka þátt í hverjum leik. 

Ísland mætir heimsmeisturum Danmerkur í fyrsta leik milliriðlakeppninnar annað kvöld klukkan 19:30. Leikurinn er í beinni útsendingu RÚV og Rásar 2.

Uppfært kl. 21:30
Björgvin Páll tjáði sig um smitið á Facebook fyrir skömmu. Þar þakkar hann fyrir batakveðjurnar og segist ætla að tækla smitið eins og hvern annan leik. Hann segist hafa fulla trú á liðinu gegn Dönum á morgun.