Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hádegisfréttir: Samþykkja viðspyrnustyrki

18.01.2022 - 12:02
Eigendur veitinga- og öldurhúsa sem orðið hafa fyrir tekjumissi vegna sóttvarnaaðgerða geta sótt um viðspyrnustyrk að hámarki 10-12 milljónir króna hver. Ríkisstjórnin samþykkti þessar aðgerðir í morgun. Þær kosta að minnsta kosti einn og hálfan milljarð króna.

 

1.383 greindust með Covid-19 innanlands í gær en tæpur helmingur þeirra var þegar í sóttkví. 66 greindust á landamærunum. 

Mun færri sjúklingar liggja á Landspítala vegna covid en jafnvel bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Óttast var að að allt að 90 manns yrðu inniliggjandi í dag, en þeir eru einungis 39. Fyrrverandi yfirlæknir covid-göngudeildarinnar telur ástæðu til að endurskoða viðbrögðin við faraldrinum.

Myndir úr eftirlitsflugvélum frá Kyrrahafsríkinu Tonga sýna að þar er allt þakið ösku eftir gríðarlegt sprengigos á laugardag. Enn er nánast sambandslaust við landið.

Formaður SÁÁ segir að framkvæmdastjórn félagsins sé í hálfgerðu sjokki vegna kæru Sjúkratrygginga Íslands til embættis héraðssaksóknara. Málið sé byggt á misskilningi. 

Mánuður er þar til íbúar í Akrahreppi og Sveitarfélaginu Skagafirði kjósa um sameiningu sveitarfélaganna. Formaður sameiningarnefndarinnar á von á góðri mætingu á kjörstað.

Ísland leikur í dag lokaleik sinn í riðlakeppni EM 2022 í handbolta í Ungverjalandi gegn heimamönnum. Allt er undir í lokaleiknum og sæti í milliriðli í húfi.  
 

 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV