Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Björgólfur Thor vill „tugi tölvupósta“ frá Halldóri

18.01.2022 - 10:56
Mynd með færslu
 Mynd: Björgólfur Thor - RÚV
Björgólfur Thor Björgólfsson hefur krafist þess að Halldóri Kristmannssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Alvogen, verði gert að afhenda greinargerð og „tugi tölvupósta og annarra dómsskjala“ í tengslum við skaðabótamál vegna gjaldþrots Landsbankans. Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði kröfunni frá en Landsréttur ómerkti þann úrskurð í síðustu viku.

Tvö fyrirtæki, Venus og Vogun, krefjast 600 milljóna króna í skaðabætur vegna gjaldþrots Landsbankans. Kristján Loftsson, oftast kenndur við Hval, er í forsvari fyrir bæði félög.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að gögnin sem Björgólfur Thor vill fá afhent hafi verið lögð fram í dómsmáli Alvogens gegn Halldóri Kristmannssyni. Þar krefst Alvogen að viðurkennt verði með dómi að fyrirtækinu hafi verið heimilt að segja honum upp störfum og að Halldór verði dæmdur til að greiða félaginu 8,5 milljónir. Einni kröfu Alvogens,  um að viðurkennd yrði skaðabótaskylda Halldórs vegna brota á trúnaðar-og starfsskyldum hans í starfi, hefur verið vísað frá.

Björgólfur segir í kröfu sinni að samkvæmt yfirlýsingu sem Halldór sendi fjölmiðlum í júní á síðasta ári sýni umrædd gögn hvernig Róbert Wessmann, forstjóri Alvogens, hafi falið lykilstjórnendum félagsins ásamt Halldóri sjálfum að undirbúa og leiða hópmálsókn gegn honum. 

Málsóknin hafi verið gerð í nafni fyrrverandi hluthafa Landsbankans þrátt fyrir að Alvogen, Alvotech eða Róbert sjálfur hefðu aldrei verið hluthafar í bankanum.  Róbert og lykilstjórnendur Alvogen og Alvotech hafi haft fulla stjórn á umræddri hópmálsókn.

Halldór lagðist gegn því að honum yrði gert að afhenda Björgólfi Thor gögnin. Hann sagði að í máli Alvogen gegn honum væri því haldið fram að hann hefði rofið trúnað gagnvart því félagi meðal annars með því hitta Björgólf Thor vegna meintrar óvildar hans í garð Róberts Wessman. Halldór sagðist jafnframt ekki gera sér grein fyrir því að hvaða leyti gögnin gætu haft þýðingu í skaðabótamálinu.

Hann væri þess fullviss að ef hann afhenti gögnin yrði reynt að nota það gegn honum, bæði almennt og í áðurnefndu dómsmáli. Honum væri mikið í mun að tryggja að hann bryti ekki hugsanlegar trúnaðarskyldu sínar gagnvart fyrrverandi vinnuveitanda.

Lögmaður Venusar og Vogunar sagði að í kröfu Björgólfs væri ekkert útskýrt hvað skjölin ættu að upplýsa og þau hefðu ekkert sönnunargildi í málinu. Beiðni Björgólfs væri tilhæfulaus og hefði þann eina tilgang að þyrla upp ryki og afvegaleiða málið. Skjölin sem krafist væri afhendingar á væru ýmist með upplýsingar sem þegar hefðu verið lagðar fram eða teldust þýðingarlausar fyrir málið. Björgólfur geti síðan alltaf kallað Halldór fyrir dóminn sem vitni. Umrætt mál hafi verið í gangi frá árinu 2016 og nægur tími gefist til að ljúka gagnaöflun.

Héraðsdómur vísaði kröfunni frá og sagði meðal annars í niðurstöðu sinni að hann fengi ekki séð að greinargerð Halldórs gæti haft sönnunargildi í skaðabótamálinu. Landsréttur ómerkti þann úrskurð þar sem meira en fjórar vikur liðu frá því að málið var lagt í úrskurð dómara og þar til úrskurður var kveðinn upp. Málið var ekki flutt að nýju þrátt fyrir þetta og hvergi var bókað að aðilar málsins væru sammála um að flutningur málsins á ný væri óþarfur.