
Gullfé fannst í Reyðarfirði - sigur gegn riðu mögulegur
Fundurinn þykir stórmerkur því arfgerðin sem nefnist ARR hefur aldrei áður fundist í sauðfé hérlendis þrátt fyrir víðtæka leit. Nýlega fannst önnur fágæt arfgerð T137 sem ítalskir vísindamenn hafa sýnt fram á að virki verndandi þar í landi. Sú arfgerð er hins vegar ekki enn viðurkennd af Evrópusambandinu.
Það eru rúmlega 20 ár síðan ljóst varð að ARR verndaði sauðfé fyrir riðu sem er ólæknandi heilasjúkdómur og þarf að skera niður stofn á bæjum þar sem riða finnst. Í löndum ESB er ekki skylda að skera niður kindur sem bera arfgerðina þó riða greinist í hjörðinni því talið er að slíkar kindur geti hvorki veikst né smitað annað fé.
Síðastliðið vor hófst leitin að verndandi arfgerðum aftur í íslenska stofninum. Að henni koma sérfræðingar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum ásamt sauðfjárbóndanum Karólínu Elísabetardóttur auk erlendra vísindamanna. Einnig var leitað í fé af íslenskum uppruna á Grænlandi. Þegar raðgreind höfðu verið rúmlega 4.200 sýni fundust tveir gripir á bænum Þernunesi í Reyðarfirði með þessa dýrmætu arfgerð, sannkallaðar gullkindur. Aftur voru tekin sýni úr gripunum og nákomnum ættingjum þeirra sem staðfestu fyrri niðurstöðu og leiddu í ljós að fjórir gripir til viðbótar báru arfgerðina, sex samtals, fimm ær og einn lambhrútur.
Féð eru kollótt og rekur ættir sínar meðal annars í kollótt fé í Reykhólasveit og á Ströndum. Í tilkynningu segir að þetta gefi miklar vonir um að ARR arfgerðin verðmæta gæti fundist víðar á landinu. Nú er að hefjast stórátak í greiningu og verða um 15 þúsund gripir greindir í vetur. Í tilkynningunni segir að það verði áskorun að koma ARR arfgerðinni sem hraðast inn í stofninn án þess að draga um of úr fjölbreytileika hans.