Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þurfa að spila fótbolta með höfuðljós

15.01.2022 - 19:59
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Það er allt í lagi að spila fótbolta með höfuðljós en óþægilegt að fá ljósið beint í augun. Svo er erfitt að sjá hvort boltinn lendir í markinu. Þetta segir Fótboltagengið, hópur barna í Mosfellsbæ, sem hefur beðið bæjarstjórn um betri lýsingu á fótboltavelli.

Það er æsispennandi fótboltaleikur hjá Fótboltagenginu í Reykjahverfi, sem er um þrjátíu ára gamalt, í Mosfellsbæ en það er dálítið erfitt að fylgjast með. Eini ljósastaurinn á svæðinu stendur við göngustíg skammt frá. 

Börnin deyja ekki ráðalaus heldur spila knattspyrnu á vellinum með höfuðljós. Þegar faraldurinn skall á byrjuðu börnin að spila saman fótbolta af kappi, oft að kvöldi til. En þá vantaði tilfinnanlega lýsingu og úr því þurfti að bæta. 

„Við spiluðum allt covid-tímabilið með höfuðljós,“ segir Lóa Birna Bogadóttir, liðsmaður Fótboltagengisins og Aftureldingar.

„Og við skrifuðum bréf til bæjarstjórnar,“ bætir Þórdís Lára Rebora við. Hún er í sama gengi og í Aftureldingu. Þórdís og Lóa settust því niður á dögunum og handskrifuðu bréf til bæjarstjórnar sem þær fóru með á bæjarskrifstofurnar. Og hvað stór í bréfinu?

„Að viljum fá gervigras og ljósastaura,“ segja þær stöllur.

Af hverju voruð að spila hérna í kóvidinu?

„Út af því að stundum var æfingum frestað hjá okkur. Við spilum stundum hérna eftir æfingar líka,“ segja krakkarnir.

Og eru krakkarnir hérna í hverfinu duglegir að spila fótbolta?

„Já, mjög,“ segja krakkarnir.

Fóruð þið eitthvað um hverfið að biðja fólk um að skrifa undir hjá ykkur?

„Já“.

Og var fólk eitthvað að nenna því?

„Já, það var bara ein kona sem sagði nei.“

Bæjarráð fjallaði um erindið í vikunni og fær það á ný til afgreiðslu að lokinni umsögn og úttekt umhverfissviðs, líklega eftir hálfan mánuð. 

Hvernig er að spila fótbolta með höfuðljósi?

„Bara fínt en óþægilegt að fá það í augun,“ segir Lóa.

En þegar þið skorið mark, sjáiði hvort boltinn fer í markið?

„Já, stundum, en ekki alltaf,“ segir Lóa og Þórdís.

Nennið þið alltaf að fara út að spila?

„Já, sama hvernig veðrið er,“ segja telpurnar.

Er ekki miklu skemmtilegra að vera heima í spjaldtölvunni?

„Nei!“

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV