Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir Ólaf Ragnar hafa skemmt gallaða stjórnarskrá

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti, hafi skemmt stjórnarskrá lýðveldisins með tveimur gjörðum sínum á forsetastóli. Hann vísar annars vegar til þess þegar forsetinn synjaði fjölmiðlalögum staðfestingar 2004 og hins vegar til þess að hann hafi ekki orðið við þingrofsbeiðni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar 2016. Björn Leví segir að stjórnarskráin hafi verið gölluð en að gallarnir hafi opinberast þegar Ólafur Ragnar hafi látið á þá reyna.

Þetta segir Björn Leví í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir þar að stjórnarskráin sé gölluð að því leyti að í henni sé rætt um víðtæk völd forseta en einnig að hann framselji ráðherrum vald sitt. Ólafur Ragnar hafi tvívegis gengið gegn þessu, annars vegar með því að neita að staðfesta lög og hins vegar með því að hafna þingrofsbeiðni. „Þegar Ólafur Ragnar ákvað hvernig skyldi túlka þessi orð skemmdi hann gölluðu stjórnarskrána,“ skrifar Björn Leví í grein sinni. „Allt í einu framseldi forseti ekki vald sitt til ráðherra, sem þýðir að forseti getur samkvæmt bókstaf stjórnarskrárinnar fellt niður rannsókn, rofið þing og veitt undanþágur frá reglum. Ólafur Ragnar bjó til nýjan konung Íslands - og gat það af því að stjórnarskráin okkar er gölluð.“

Atvikin sem Björn Leví vísar til í grein sinni vöktu mikla umræðu á sínum tíma. Fjölmiðlalögin sem Alþingi samþykkti árið 2004 voru mjög umdeild í þjóðfélaginu. Þá var líka deilt um það hvort að forseti hefði í raun synjunarvald á lögum. Samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar þarf forseti að staðfesta lög svo þau fái lagagildi. Neiti hann því taka lögin gildi en fara í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ræður endalega úrslitum þeirra. Á þetta hafði aldrei reynt í sögu lýðveldisins sem á þessum tíma var 60 ára gamalt. Meðal þeirra fræðimanna sem höfðu gert lítið úr vægi þessa ákvæðis var Ólafur Ragnar Grímsson sjálfur þegar hann var prófessor í stjórnmálafræði um aldarfjórðungi áður en forsetinn Ólafur Ragnar neitaði að undirrita lög.

Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, skrifaði meðal annars grein þar sem hann sagði forseta skylt að undirrita það sem ráðherra málaflokks leggur fyrir hann, hvort sem er staðfestingu laga eða synjun þeirra. Samkvæmt þeirri túlkun lægi synjunarvald forseta í raun hjá ráðherra en ekki forseta.

Endanlega niðurstaða málsins var þó sú að málið fór aldrei í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þing kom saman og eftir nokkra rekistefnu afnam það fjölmiðlalögin. Það var svo ekki fyrr en forseti synjaði lögum um Icesave staðfestingar sem synjun forseta leiddi til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eftir uppljóstranir í Panamaskjölunum lék þjóðfélagið á reiðiskjálfi og staða ríkisstjórnarinnar og þó sérstaklega Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra, var óljós. Hann hélt á Bessastaði og ræddi við forseta. Ólafur Ragnar sagði Sigmund hafa verið með þingrofsbeiðni tilbúna en að hann hefði neitað að undirrita hana því óljóst væri að forsætisráðherra nyti stuðnings þingsins við slíkri beiðni. Sigmundur Davíð sagðist ekki hafa farið fram á þingrof aðeins kynnt slíkar hugmyndir og leitað viðbragða við þeim. Fram að þessu hafði almennt verið álitið að forsætisráðherra færi með þingrofsréttinn en Ólafur Ragnar sagði árið 2009 að forseta væri ekki skylt að verða við þingrofsbeiðni forsætisráðherra sem ekki nyti meirihlutastuðnings á Alþingi.