
Refsing Ghislaine Maxell ákveðin í júní
Maxwell sem er nýorðin sextug gæti átt yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi. Tvær konur báru vitni í réttarhöldunum yfir Maxwell sem kváðust hafa verið fjórtán ára þegar Maxwell fékk þær til að taka þátt í kynferðisathöfnum með Epstein. Hann dó í fangelsi árið 2019 en talið er að hann hafi stytt sér aldur.
Lögmenn Maxwell kröfðust endurupptöku málsins eftir að upp komst að einn kviðdómenda hefði sannfært aðra kviðdómendur um að sakfella Maxwell með því að segja frá eigin upplifun af kynferðisbroti.
Samkomulag náðist um að felldar yrðu niður ákærur í tveimur meinsærismálum gegn henni gegn því að niðurstaða kynferðisbrotadómsins stæði.
Ghislaine Maxwell er dóttir breska blaðakóngsins Roberts Maxwell, ólst upp við mikið ríkidæmi og öðlaðist menntun í Oxford. Hún vingaðist meðal annars við meðlimi bresku konungsfjölskyldunnar.
Andrés hertogi af Jórvík afsalaði sér öllum titlum nú í vikunni. Ástæðan er dómsmál gegn honum þar sem Virginia Giuffre krefur hann um bætur vegna kynferðisbrots þegar hún var 17 ára. Hún segir þau Maxwell og Epstein hafa neytt sig til kynmaka við prinsinn.