Mótel brann til kaldra kola í Norður-Noregi

15.01.2022 - 06:17
Erlent · Bruni · Eldur · Finnmörk · Noregur · Slökkvilið · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: BÅRD WORMDAL/NRK
Engan sakaði þegar mikill eldur varð laus í móteli í Austur-Finnmörku í Noregi í nótt. Íbúar í nokkrum nærliggjandi húsum þurftu að yfirgefa heimili sín en íbúum nærliggjandi dvalarheimilis hefur þó ekki verið gert að yfirgefa það.

Mótelið er á Vargey eða Vardø, byggt úr timbri og brann til kaldra kola samkvæmt fréttum norska ríkisútvarpsins. Tilkynning barst um brunann laust fyrir klukkan fjögur í nótt að staðartíma.

Um 15 til 20 slökkviliðsmenn börðust við eldinn í nótt og enn logar í rústunum auk þess sem þykkan reyk leggur frá þeim. Lögregla hefur staðfesta að enginn var innandyra en mótelið var ekki opið gestum þegar eldurinn kom upp.

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV