Guðbjörg Jóna bætti eigið Íslandsmet í 60 metra hlaupi

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Guðbjörg Jóna bætti eigið Íslandsmet í 60 metra hlaupi

15.01.2022 - 14:00
Frjálsíþróttakonan Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir bætti í dag eigið Íslandsmet í 60 metra spretthlaupi. Fyrra met hennar var 7,46 sekúndur en hún hljóp á 7,43 sekúndum í Laugardalshöllinni í dag.

 

Helgarmót Reykjavíkurfélaganna fer fram í Laugardalshöllinni í dag og þar hljóp Guðbjörg Jóna. Auk þess sem að hún bætti eigið met þá bætti liðsfélagi hennar, Tiana Ósk Whitworth, fyrra metið sömuleiðis en hún kom í mark á 7,45 sekúndum. Guðbjörg segir í samtali við Frjálsíþróttasambandið á fri.is að hún hafi verið að vonast eftir Íslandsmeti en hafi ekki verið að búast við því. „Þetta hlaup var fínt, hefði mátt útfæra það aðeins betur. Ég á mikið inni,“ segir Guðbjörg. 

Guðbjörg og Tiana stefna báðar á Reykjavíkurleikana sem eiga að fara fram 6. febrúar í Laugardalshöll. Þar ætla þær að freista þess að komast á Norðurlandameistaramótið sem fer fram 13. febrúar í Svíþjóð.