Fimm til ellefu ára börn bólusett í Brasilíu

epa09685551 A child receives a shot of COVID-19 vaccine during a vaccination drive for children between 5 and 11 years of age, in Sao Paulo, Brazil, 14 January 2022.  EPA-EFE/Sebastiao Moreira
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Bólusetningar barna á aldrinum fimm til ellefu ára hófust í Brasilíu í gær. Heilbrigðisyfirvöld heimiluðu bólusetningar þess aldurshóps í síðasta mánuði þrátt fyrir hávær mótmæli Jairs Bolsonaros forseta.

Það var átta ára drengur, Davi Seremramiwe Xavante að nafni, sem fékk fyrstu sprautuna við hátíðlega athöfn á  Sao Paulo-sjúkrahúsinu að viðstöddum Joao Doria ríkisstjóra. Almennar bólusetningar hófust einnig þar í borg í janúar á síðasta ári. 

Yfir tuttugu milljónum barna stendur til boða að þiggja bólusetningu en samþykki foreldra þarf að liggja fyrir. Börn úr hópi frumbyggja landsins og þau sem glíma við heilsufarsvanda eru í forgangshópi.

Bolsonaro forseti hefur ítrekað gagnrýnt ákvörðun heilbrigðisstofnunarinnar Anvisa og segir af og frá að Lára, ellefu ára dóttir hans, verði bólusett.

Hann hefur sjálfur ekki þegið bólusetningu en krafa hans um að nöfn þeirra sem samþykktu bólusetningu barna skyldu gerð heyrinkunnug ollu nokkru uppnámi.

Forstöðumaður stofnunarinnar fór í kjölfarið fram á lögregluvernd fyrir starfsfólk hennar eftir að því var hótað öllu illu.

Frá því að faraldurinn skall á hafa yfir 300 brasilísk börn á aldrinum fimm til ellefu ára látist samkvæmt fréttum AFP-fréttaveitunnar en alls hafa 620 þúsund fallið í valinn af völdum sjúkdómsins í landinu.

Nýjum tilfellum hefur fjölgað mjög eftir að omíkron-afbrigðið festi rætur en á fimmtudag var tilkynnt um yfir 100 þúsund smit. Tveimur vikum áður voru þau sex þúsund talsins.