Slakað á sóttvarnatakmörkunum í Hollandi

epa09685858 Protesters take part in a demonstration in The Hague, the Netherlands, 14 January 2022, as Dutch Prime Minister Rutte and Health Minister Kuipers hold a press conference about COVID-19 restrictions.  EPA-EFE/PHIL NIJHUIS
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Hollensk stjórnvöld hafa ákveðið að slaka á sóttvarnareglum í ljósi þess að sjúkrahúsinnlögnum hefur fækkað þrátt fyrir mikla útbreiðslu omíkron-afbrigðisins í landinu.

Fyrir jól gripu Hollendingar til einhverra hörðustu takmarkana sem um getur í Evrópu en frá og með morgundeginum mega verslanir, hárgreiðslustofur og líkamsræktarstöðvar hafa opið til klukkan fimm síðdegis.

Þessum fyrirtækjum var gert að hætta allri starfsemi líkt og krám, veitingastöðum og menningarstofnunum en þar verður áfram lokað að minnsta kosti til 25. janúar næstkomandi.

Grunnskólar í Hollandi hófu starfsemi að nýju 10. janúar og nú má hefja kennslu á hærri skólastigum einnig. Ný ríkisstjórn tók við völdum í Hollandi í vikunni en Mark Rutte er áfram forsætisráðherra. 

Hann kveðst óttast að hefði verið ákveðið að heimila opnun víðar hefði daglegum smitum fjölgað enn frekar en ríflega 35 þúsund ný smit greindust í gær. Ákvörðunin verður að sögn Ruttes endurskoðuð 25. janúar. 

Í nokkrum borgum Hollands verður heimilað að opna veitingastaði og kaffihús á morgun laugardag. Það gert til að sýna andstöðu við ákvörðun ríkisstjórnarinnar en gildir aðeins þennan eina dag. Veitingamenn mega því ekki halda áfram starfsemi sinni á sunnudaginn.