Lærisveinar Alfreðs sýndu klærnar í seinni hálfleik

epa09685742 Kai Hafner of Germany (R) in action against Andrei Yurynok of Belarus (L) during the Men's European Handball Championship preliminary round match between Germany and Belarus in Bratislava, Slovakia, 14 January 2022.  EPA-EFE/MARTIN DIVISEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Lærisveinar Alfreðs sýndu klærnar í seinni hálfleik

14.01.2022 - 18:28
Fyrsti leikur dagsins á Evrópumótinu í handbolta var viðureign Þýskaland og Hvíta-Rússlands í Slóvakíu. Þýskaland varð Evrópumeistari árið 2016 undir stjórn Dags Sigurðssonar en þjálfari liðsins á þessu móti er Alfreð Gíslason. Eftir brösulega byrjun komst þýska liðið almennilega í gang í seinni hálfleik og vann að lokum öruggan fjögurra marka sigur.

Leikið var í Ondrej Nepela höllinni í Bratislava en þar fer allur D-riðillinn fram. Ásamt þessum þjóðum eru Austurríki og Pólland í riðlinum, þær þjóðir mætast á sama tíma og leikur Íslands og Portúgals fer fram eða klukkan 19:30.

Það voru Hvítrússar sem byrjuðu leikinn í dag miklu betur og komust í 7-2 áður en fimmtán mínútur voru liðnar af leiknum. Þá tók Alfreð Gíslason leikhlé og inn komu reyndari leikmenn á borð við Julius Kuhn og Andreas Wolff. Við það breyttist leikur Þýskalands til hins betra og áður en langt um leið hafði Þýskaland tekið forystu í leiknum 12-11. Sú forysta entist þó ekki lengi og voru það Hvítrússar sem fóru með eins marks forystu inn í hálfleikshléið. 

Í seinni hálfleik sýndi Þýskaland mátt sinn og megin og dönsuðu Hvítrússar þá ekki með, svo fór að Þjóðverjar unnu nokkuð sannfærandi sigur þrátt fyrir takmarkaða hjálp frá markvörðunum en lokatölur urðu 33-29 og Alfreð Gíslason og hans menn hefja mótið á sigri.