Gerir alvarlegar athugasemdir við ummæli Katrínar

14.01.2022 - 19:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórn Kennarasambands Íslands segir að ekkert samráð hafi verið haft við fólk í faginu þegar ákvörðun um að halda skólastarfi óbreyttu var tekin af stjórnvöldum og gerir „alvarlegar athugasemdir“ við málflutning Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

Sagði ákvörðunina byggða á jafnréttissjónarmiðum

Forsætisráðherra sagði á óformlegum upplýsingafundi að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun að jafnréttissjónarmið hafi meðal annars ráðið því að engar breytingar hafi verið gerðar á takmörkunum í skólum landsins. Hefðu aðgerðir þar verið hertar hefði það bitnað á konum, sem væru þá frekar heima með börnin. 

Stjórn Kennarasambands Íslands gerir „alvarlegar athugasemdir“ við þetta í fréttatilkynningu sem send var á fjölmiðla og skorar á ríkisstjórnina að standa vörð um menntakerfið og menntun og hlusta á ráð færustu sérfræðinga, hvort sem um ræðir nám eða sóttvarnir. 

„Ef stjórnvöldum er jafn annt um jafnrétti og þau segja eru þeim hæg heimatökin að byrja á eigin ranni – enda viðhalda þau sjálf einu stærsta, kerfislæga ójafnrétti íslensks samfélags: láglaunastefnu kvennastétta í opinberum störfum, “ segir í tilkynningunni. 

Ekkert samráð við fagfólk

Þá segir stjórnin að ekkert samráð hafi verið haft við fagfólk þegar ákvörðun var tekin um að halda skólastarfi óbreyttu, þrátt fyrir daglega samráðsfundi með menntamálaráðherra þar sem staða skólamála er vöktuð. 

„Sú ákvörðun stjórnvalda í dag að halda skólastarfi óbreyttu var ekki rædd á fyrrnefndum samráðsvettvangi aðila þótt skilja mætti orð heilbrigðisráðherra sem svo að um samráð hafi verið að ræða. Sú ákvörðun var tekin af ríkisstjórninni og er á ábyrgð hennar.“

Raunveruleikinn sé sá að þegar hafi orðið miklar raskanir á skólastarfi frá áramótum og flókið verði að standa vörð um menntun í landinu á næstu dögum og vikum. 

„Leiðin áfram hlýtur að byggja á því sem hingað til hefur virkað: Að hlusta á og treysta fagfólki. Við höfum dæmi víðar en úr skólastarfi um það að stjórnvöldum fer þá fyrst að skrika fótur þegar þau taka eigin pólitísku sannfæringu fram yfir ráð þeirra sem best til þekkja.“