Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fimm fantafín á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Ninja Tune - Concorde

Fimm fantafín á föstudegi

14.01.2022 - 13:10

Höfundar

Það er indírokkslagsíða á fimmunni að þessu sinni og boðið upp á huggulegt fínerí frá Mitski, hæga uppbyggingu hjá Black Country, New Road, hressandi rokk frá Dyflinnardrengjunum í Fontaines D.C., skrítnipopp frá Aldous Harding og Cat Power breiðir yfir sjálfa sig.

Mitski – Heat Lightning

Mitski sendi nýlega frá sér þriðja lagið af plötu sinni Laurel Hell, sem heitir Heat Lightning. Platan kemur út 4. febrúar sem er vel valið hjá henni þar sem það er einn besti dagur ársins. Nýlega sagði tónlistarkonan frá því í viðtali að hún hefði á tímabili hætt að vinna í tónlist til að finna aftur ástríðuna. Það virðist hafa virkað vel og það er að byggjast upp töluverð spenna eftir sjöttu plötu hennar hjá tónlistarnördum eftir singlana frábæru, Working For the Knife og The Only Heartbreaker.


Black Country, New Road – Concorde

Hljómsveitin Black Country, New Road er svo sem ekkert að reyna að semja aðgengileg og grípandi jólalög en er samt sem áður að sigra stóran hóp tónlistarunnenda með tilraunakenndum hljóm sínum sem þykir minna á Slint. Tónlistarstefnuna er ekki beinilínis hægt að negla niður. Þrátt fyrir að það sé haldið fast í gamlar og klassískar indíklisjur þá er bætt við nógu miklu af töfrakryddi til að hlutir séu skemmtilegir.


Fontaines D.C. – Jackie Down the Line

Hljómsveitin Fontaines D.C. frá Írlandi er besta rokkband dagsins í dag og nýja platan þeirra, Skinty Fia, sem er væntanleg í apríl fylgir eftir meistarastykkjunum Dogrel og A Heroes Death. Það er því smá pressa á þessum drengjum frá Dublin en ef eitthvað er að marka fyrsta lagið af plötunni, Jackie Down the Line, þá er engu að kvíða því þeir virðast bara vera með þetta.


Aldous Harding – Lawn

Nýsjálenska skrítnipoppkrúttið Aldous Harding sendi frá sér nýtt lag í vikunni af vætanlegri þriðju plötu sem hún kallar Warm Chris og vinnur með pródúsernum John Parish. Meðal gesta á nýju plötunni, sem verður tíu laga, er prakkarinn Jason Williamson úr Sleaford Mods og það hefði óneitanlega verið gaman að sjá þessa tvo furðufugla hittast.


Cat Power – Unhate

Tónlistarkonan Chan Marshall hefur sent frá sér enn einn frábæran söngul af tökulagaplötu sinn Covers sem kemur út í dag. Að þessu sinni tekur hún sitt eigið lag, Hate, af plötunni The Greatest og endurgerir sem Unhate en útgáfa hennar af Frank Ocean-laginu Bad Religion hefur ómað töluvert á Rásinni undanfarnar vikur. 


Fimman á Spotify