Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Alþjóðaflugstöðin í Færeyjum stækkuð verulega

14.01.2022 - 05:28
Til stendur að stækka flugstöðina við Vogaflugvöll í Færeyjum þre- eða fjórfalt þannig að taka megi á móti milljón flugfarþegum árlega.
 Mynd: KVF
Til stendur að stækka flugstöðina við alþjóðaflugvöllinn í Færeyjum verulega. Þær framkvæmdir eru hluti af enn umfangsmeiri framkvæmdum við flugvöllinn sem ætlunin er að geti sinnt allt að milljón farþegum á ári.

Færeyska ríkisútvarpið hefur eftir Regin I. Jakobsen flugvallarstjóra að flugstöðin sé alltof lítil til að anna þeirri umferð sem verið hefur um hana undanfarin ár eða um það bil 400 þúsund farþegum árlega.

Hann vonast til að nú styttist í að gestum til Færeyja taki að fjölga að nýju og segir langt í frá óraunhæft að ætla að fjöldinn fari yfir eina milljón í náinni framtíð.

Nú segir Jakobsen að liggi í augum uppi að flugstöðin hafi verið alltof lítil þegar hún var byggð en þá hafi flugvélar sem lentu í Færeyjum verið helmingi minni en þær sem þangað fljúga nú orðið.

Þegar framkvæmdum við flugstöðina við Vogaflugvöll lýkur verður hún þrisvar til fjórum sinnum stærri en sú þrjú þúsund fermetra bygging sem nú tekur við flugfarþegum til Færeyja.