„Óheiðarleiki og klúður var minn raunveruleiki“

Mynd: Ari Eldjárn / Aðsend

„Óheiðarleiki og klúður var minn raunveruleiki“

13.01.2022 - 09:50

Höfundar

„Þegar ég þekkti ekkert nema ósigra molnuðu öll mín plön niður,“ segir Bragi Páll Sigurðarson rithöfundur og sjómaður. Hann tók ákvörðun árið 2012 um að fara í meðferð á Vogi og segir að allt gott sem hafi komið fyrir sig síðan hafi verið vegna þess. Sögupersónur sínar í vinsælum skáldsögum byggir hann að hluta á sjálfum sér á snemmfullorðinsárum, fyrir meðferð.

Bragi Páll Sigurðsson rithöfundur og sjómaður er kuldaskræfa sem passar sig að eiga alltaf ullarnærföt, buff og sokka og nóg af þessu öllu, sérstaklega í byrjun árs þegar hann fer á sjóinn að veiða með föður sínum. Bragi er ættaður úr Breiðafirði, fæddur í Stykkishólmi þar sem hann bjó fyrstu tæplega fimm árin þar til foreldrar hans skildu og Bragi flutti með móður sinni, Jónu Dís Bragadu,ttir í Mosfellsbæ sem þá var enn nokkuð hrjóstrugur. Faðir Braga, Sigurður Páll Jónsson fyrrum þingmaður Miðflokksins, býr enn í Stykkishólmi svo Bragi ver þar enn miklum tíma. Bragi Páll segir frá uppvextinum, skáldskapnum, heimilislífinu og sinni eftirlætistónlist í Lagalistanum á Rás 2.

Kúrekatýpur fluttu í Mosfellsbæ

Mosfellsbærinn, á þeim árum sem Bragi Páll var búsettur þar, segir hann að hafi í raun hvorki verið fugl né fiskur á þeim tíma. „Þarna er Álafosshverfið en það er rjúkandi rúst, ekki orðið töff og enn langt í að Sigurrós mæti þarna,“ segir Bragi. Mosfellsbærinn hafi ekki verið úthverfi en samt ekki úti á landi, sem olli nokkurri tilvistarkrísu. „Það var bara einbreiður vegur á milli, ekki búið að malbika hann og hann var ekki upplýstur svo það að fara til Reykjavíkur var pínu athöfn.“

En þarna byggðist upp samfélag. „Þetta voru svona kúrekatýpur sem fluttu þarna með börn á þessum árum. Mamma tekur saman við Helga Sigurðsson dýralækni og fóstra minn sem bjó í hlíðum Helgafells, núna orðið Helgafellshverfi,“ segir Bragi Páll. „Þannig endar maður þarna í Mosó.“

Voru skrýtin og einangruð

Honum þykir vænt um sveitarfélagið og að hafa upplifað að sjá bæinn stækka jafnt og þétt. „Það eru tveir bekkir í mínum árgangi þegar ég byrja þarna, rétt rúmlega fjörutíu krakkar, en þegar ég útskrifast eru níutíu og átta krakkar í árganginum sem bendir til þess hve mikið bærinn er að vaxa á þessum árum. Það eru að spretta upp ný hverfi á fullu, fólk er að byggja og byggja og flytja í Mosó,“ segir hann.

Hann segir að það hafi vissulega verið ódýrt að búa þar en fólk hafi staðið frammi fyrir ýmsum áskorunum. „Þú ert út fyrir allt og þarft að sækja alla þjónustu til Reykjavíkur,“ segir Bragi. Hann segist hafa, líkt og jafnaldrar sínir, fundið fyrir því að þau væru utan alfaraleiðar. „Fólkið sem var með mér í árgangi, ég átta mig ekki á því fyrr en ég byrja að kynnast jafnöldrum mínum í öðrum hverfum við við vorum og erum skrýtin og einangruð og hvernig Mosókúltúrinn er.“ Bragi, líkt og jafnaldrar hans úr nágrenninu, hlustaði mikið á þungarokk og hann segir að þungarokksenan sem hafi orðið til um aldamót hafi verið að miklu leyti sprottin frá Mosó, „því þar voru krakkar að sturlast. Það var ekkert að gera og allir með sítt hár.“

„Skammaðist mín eins og ég hefði framið glæp“

Bragi var því þungarokkari af guðs náð. Hann spilaði á túbu með skólahljómsveitinni og hann er tónvís en hann vildi bara hlusta á harðkjarnatónlist og reka löngutöng framan í heiminn. Síðan uppgötvaði hann tónlist sem hann naut þess að hlusta á en enginn mátti vita það. „Þú máttir í raun ekki hlusta á aðrar tónlistarstefnur þarna 1998-2001 en þungarokk, þá var það að hlusta á rapp ekki smart. Þegar Rottweilerhundar unnu Músíktilraunir, það var bara áfall fyrir okkur. Ég tala ekki um diskópopp, það var það allra lægsta,“ segir Bragi sem komst í kynni við diskóið á ferðalagi með fjölskyldunni um Noreg þegar hann var unglingur. „Við fórum með Norrænu og erum með fellihýsi með okkur, ég er með ferðageislaspilarann og allar þungarokksplöturnar, við erum að tala um Deftones, Slipknot en líka gamalt AD/DC og helstu kempurnar,“ segir Bragi.

Móðir hans, Jóna, er mikil ABBA-kona og hún tók með sér safnplötuna ABBA Gold til að hlusta á í bílnum. Þegar Bragi hafði snúið öllum þungarokksplötunum ansi oft ákvað hann að prufa að setja ABBA í spilarann. „Ég er þarna með dredda niður á bak, alltaf ullandi á alla og að senda fokkjú-putta því ég var svo mikill þungarokkari, en einhvern veginn gerist það að ABBA Gold fer að læðast í ferðageislaspilarann og ég bara: Djöfull er þetta gott. En ég sagði engum frá því, sit bara aftur í með systkinum mínum og bara: Knowing me, knowing you - aha,“ syngur Bragi. Þau koma heim, Bragi byrjar í níunda bekk og er fullur sektarkenndar. „Það eru alltaf að koma út nýjar þungarokksplötur og við erum að fara á þungarokktónleika og ég man að ég skammaðist mín eins og ég hefði framið glæp. Ég sagði engum frá því að ég hefði átt þetta sumar með ABBA.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ari Eldjárn - Aðsend
Kvikmyndahandrit eftir fyrstu skáldsögu Braga, Austur, er tilbúið og hann bíður þess að vita hvort hann fái laun fyrir að skrifa nýja bók á árinu.

Lærdómsríkt að vera lúser

Bragi Páll fór eftir grunnskóla í Menntaskólann í Reykjavík og þaðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Hann fór að finna fyrir reiðileysi því hann vissi ekki hvert hann vildi stefna í lífinu en hann vissi að hann vildi hafa gaman. Það gerði hann lengi vel en brátt fór gamanið að kárna. „Mér gekk ágætlega í grunnskóla og gaggó en í menntaskóla þarftu að fara að læra og það tók mig ofboðslegan tíma að meðtaka og viðurkenna það fyrir mér. Ég er að falla ár eftir ár, druslast á milli skóla en er að læra margt annað en það sem stóð í bókunum og kynnast fólki sem enn eru eins og vinir mínir en það er líka eins og gamla máltækið segir, vegur þjáningarinnar liggur til hallar viskunnar,“ segir Bragi.

Árið 2012 fór hann í meðferð á Vogi, sem hann segir vera eina bestu ákvörðun sem hann hefur tekið. „Það að að vera lúser í svona mörg ár var mjög lærdómsríkt, að upplifa sig svona mikinn bjána var hollt fyrir mig.“

Gat prófað annan búning

Bragi fullyrðir að allt jákvætt sem gerst hafi í sínu lífi undanfarin níu ár sé bara vegna þess að hann hefur ekki verið að drekka eða reykja. „Það átti bara ofboðslega illa við mig og gekk ekkert upp í mínu lífi, engin plön sem ég gerði gengu upp,“ rifjar Bragi upp um tímann þegar hann var enn í neyslu. Hann hafði þó fyrirmynd sem hafði farið þessa leið sem nú lá beint við. „Pabbi minn fer í meðferð þegar ég er tíu eða ellefu ára og ég fékk að sjá hann snúa lífi sínu algjörlega við, fara úr því að vera óhamingjusamur karl í Stykkishólmi í að verða einhvers konar broddborgari sem bæði ég og hann litum upp til og gátum leitað til. Ég hafði þessa fyrirmynd og gat sótt í það,“ segir Bragi. „Það var ekki langur vegur fyrir mig að sjá: Já, ókei ég er lúser en kannski get ég hætt því. Ég get kannski prófað annan búning en lúserabúninginn.“

 

Þekkti ekkert nema ósigra

Bragi hefur sent frá sér tvær skáldsögur, Austur sem kom út árið 2019 og Arnaldur Indriðason deyr sem kom út núna fyrir jólin. „Aðalkarakterarnir í þeim báðum eru misheppnaðir á stjarnfræðilegu leveli. Það er bara byggt á gamalli sjálfsmynd frá sjálfum mér því þegar ég er unglingur og snemma á tvítugsaldri. Þegar ég þekkti ekkert nema ósigra molnuðu öll mín plön niður.  Óheiðarleiki og klúður það var bara minn raunveruleiki.“

 

„Við fríkin fundum hvert annað“

Nú hefur gamall draumur ræst, Bragi Páll er orðinn rithöfundur eins og hann ætlaði sér alltaf að verða. Hann byrjaði ungur að skrifa sögur sem voru innblásnar af bókum Þorgríms Þráinssonar, eins og Lalla ljósastaur, og fór með til kennarans í grunnskóla sem las sögurnar upp fyrir bekkinn.  Svo hélt hann úti bloggi, skrifaði dagbækur og ljóð og tók þátt í ræðukeppni framhaldsskólanna. Eftir framhaldsskóla skráði hann sig í ritlist í Háskóla Íslands og kynntist ýmsum áhrifavöldum í lífi sínu, meðal annars ástkonu sinni Bergþóru Snæbjörnsdóttur rithöfundi. „Það sem gerðist var að við fríkin fundum svolítið hvert annað. Ég og Bergþóra, sambýliskona og barnsmóðir, byrjuðum að fella hugi saman þarna í og eftir ritlist og úr þessum hópi hafa komið margir af okkar upprennandi rithöfundum í dag. Svo það er þarna sem ég fer að trúa því að ég geti unnið við að skrifa.“

Þreytandi að skrifa drasl sem enginn hefur gaman að

Það flækir rithöfundarstarfið að það er ekki til neinn leiðarvísir að því hvernig hægt er að verða góður rithöfundur, það dugir ekkert nema æfing. „Aðrir íslenskir rithöfundar eru hjálpfúsir en þeir hafa sjálfir þurft að ganga í gegnum þann táradal sem það er að komast á þennan stað. Það er þessi tíu klukkustunda samúræjaregla að ef þú ætlar að verða góður í einhverju eða eyða mjög miklum tíma í það,“ segir Bragi. „Ég held að fólk átti sig ekki á því hvað það er þreytandi að eyða þúsundum klukkutíma í að skrifa algjört drasl sem þú hendir og enginn hefur sérstaklega gaman af, ekki einu sinni þú sjálfur.“

Mikið slím, hor og gubb á meðan á skrifum stóð

Nýjasta skáldsagan, Arnaldur Indriðason deyr, hefur fengið hífandi viðtökur. Bókinni lýsir höfundur sem skrumskælingu á samfélaginu og þekktum einstaklingum. Fyrri skáldsagan er skrifuð yfir langt tímabil en Arnaldur Indriðason deyr varð til á styttri tíma, sem Bragi segir að hafi sína kosti og galla. „Kostirnir eru þeir að ég næ þá að ramma betur inn það ástand sem ég er í á meðan ég skrifa,“ segir hann. „Austur er þrískipt og marglaga, gerist á þremur mismunandi stöðum yfir langan tíma en þessi bók er meiri þrassmetall. Maður dúndrast í gegnum hana og hún kemur beint í síðuna á manni.“

Bragi var illa sofinn meðan á skrifunum stóð og segir hann að bókin beri þessi merki. Hann og Bergþóra eiga tvö ung börn og annað þeirra fékk fjölmargar pestir á þeim tíma sem bókin var skrifuð. „Það var mikið um hor, slím og niðurgang og það var mikið gubb að gerast á meðan ég var að skrifa hana svo hún verður mjög líkamleg á köflum,“ segir höfundurinn. Aðalpersónunni, Ugga Óðinssyni, lýsir Bragi sem klúðurslegum karakter sem er byggður á honum sjálfum og eigin ósigrum.

Arnaldur Indriðason ekki beðinn um leyfi en rætt við tvo lögfræðinga

Arnaldur var sjálfur ekki spurður um leyfi fyrir titlinum enda lýsir Bragi honum sem risa á íslenskum bókamarkaði sem hann þori ekki að nálgast. Þó var talað við tvo lögfræðinga sem lásu bókina yfir áður en hún var gefin út til að tryggja að það væru engin lög brotin í því sem sagt var um nafntogaða einstaklinga. Uggi er nefnilega skæður bloggari í bókinni sem sakar nafntogaða einstaklinga þar um lögbrot. Því þurfti að breyta. „Það kemur í ljós að það er ekki vel séð að segja að menn séu meintir níðingar svo það þurfti að taka það út, því jafnvel þó það sé skálduð persóna að segja þessa hluti þá er á það hættandi. Þú mátt taka raunverulegar persónur og drepa þær og láta þær gera alls konar hluti en um leið og þú ferð að fullyrða að þær hafi framið refsivert athæfi er það lína sem farið er yfir - sem er svekkjandi því Uggi sjálfur ætlaði alls ekki að vilja ritskoða það.“

„Það að deyja hlýtur að vera hápunktur brandarans“

Síðasta tónlistarspurningin sem Bragi Páll fær í viðtalinu er um það hvaða lag hann myndi vilja að leikið væri í eigin jarðarför. Hann segist þegar hafa rætt um það við barnsmóður sína að það eigi að vera Yakety Sax með Benny Hill, enginn sorgarmars. „Mannleg tilvist er svo innilega hlægileg og það er svo bjánalegt að við séum að taka okkur svona alvarlega. Það að deyja hlýtur að vera hápunktur brandarans að vera til, af hverju þá að spila sorglega tónlist?“ segir Bragi að lokum.

Kvikmyndahandrit, listamannalaun og sjómannslíf

Það er nóg um að vera á þessu ári í lífi höfundarins. Kvikmyndarétturinn á fyrri skáldsögunni Austur er kominn það langt að bókin er orðin að kvikmyndahandriti sem Kristín Eysteinsdóttir fyrrum Borgarleikhússtjóri er að klára svo það er von á að einhver hreyfing komist í þau mál. Annars er Bragi Páll að venju að fara að verja tíma á sjónum og nú bíður hann eftir því að fá svör frá RANNÍS um hvort hann fái listamannalaun í ár og tíma til að setja saman nýja bók.

Lovísa Rut Kristjánsdóttir ræddi við Braga Pál Sigurðarson í Lagalistanum á Rás 2. Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Arnaldur myrtur í „heiðarlegri lygasögu“

Bókmenntir

Skiptast á að vera Auður Laxness