Langtímaveikindi starfsfólks LSH aldrei meiri

13.01.2022 - 19:23
Mynd: Kristján Þór Ingvarsson / RÚV
Róðurinn á Landspítalanum er enn að þyngjast, að sögn Guðlaugar Rakelar Guðjónsdóttur, starfandi forstjóra. Hún segir að stéttarfélög starfsmanna Landspítala aldrei hafa séð eins hátt hlutfall langtímaveikinda eins og nú. Og enn þarf að leita á náðir starfsfólksins til að auka við sig vinnu til að halda kerfinu gangandi.

Það er þungur róður á Landspítala. Þetta kann að hljóma kunnuglega. Spítalinn hefur verið á neyðarstigi frá því rétt fyrir áramót og í vikunni lýstu almannavarnir yfir neyðarstigi sínu vegna farsóttarinnar. Sjúklingum sem liggja inni með COVID-19 fjölgar dag frá degi. Í dag eru þeir 43, þar af sex á gjörgæslu. Lengi hefur verið vandamál að manna spítalann svo að allt gangi smurt fyrir sig. Ótti stjórnvalda er sá að innlögnum fjölgi á næstunni vegna þess geigvænlega fjölda smita sem hefur greinst frá því að yfirstandandi bylgja tók að rísa um miðjan desember. 

En nú, eins og svo oft áður, stendur spítalinn frammi fyrir risastóru verkefni. Að halda heilbrigðiskerfinu gangandi. Það vofir yfir að gripið verði til hertra samfélagslegra takmarkana. Landlæknir sagði til að mynda í hádegisfréttum að staðan hefði sjaldan eða aldrei verið þyngri frá því faraldurinn hófst.

200 heilbrigðisstarfsmenn óskast

Guðlaug Rakel segir að það vanti um 200 starfsmenn til starfa á spítalanum, aðallega hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.

„Það sem við erum að horfa á núna er hvernig við ætlum að koma okkur í gegnum þennan skafl? Miðað við covid spána þá lítur það ekkert sérstaklega vel út. En jákvæðu fréttirnar eru samt þær að það lítur út fyrir að við séum í bjartsýnni hluta, eða líklegri hluta spárinnar en ekki í svartsýnasta hlutanum og við erum að reyna að manna með tilliti til líklegu spárinnar. Miðað við líklegu spána þá erum við að tala um ca 200 stöðugildi“

„Það sem við erum að sjá í faraldrinum núna er að hlutfall barna í covid göngudeildinni eykst. Það er í kringum 2.600 börn þar. Það er mjög mikið. Og það eru 5.700 fullorðnir eins og við höfum flokkað sjúklinga á deildinni eftir bráðleika eða veikindum. Í morgun voru 229 af þessum á gulu sem eru sjúklingar sem þarf að fylgjast vel með og eru að koma inn til meðferðar á göngudeild til að fá veirulyf, vökva eða hvað það er.“  segir Guðlaug Rakel.

Snjóboltinn stækkar

Tæpur helmingur skurðstofa eru opin eins og er á Landspítalanum og segir hún að álagið myndi stóran snjóbolta sem verður þrautin þyngri að vinda ofan af. Fyrst og fremst vantar hjúkrunarfræðinga á gjörgæslu og göngudeildina og sjúkraliða.

En hvaðan á þetta fólk allt að koma?

„Það er von að þú spyrjir því það er takmörkuð auðlind, heilbrigðisstarfsfólk er takmörkuð auðlind þannig að við þurfum í raun og veru að fá aukið vinnuframlag frá fólki til að þetta gangi upp og fólk er virkilega búið að gera það í faraldrinum að auka við sig í vinnuprósentu og auka vinnuframlag. En við höfum líka verið að fá fólk annars staðar frá. við höfum verið að fá fólk frá öðrum heilbrigðisstofnunum eins og Akureyri, frá Klínikinni og það er verið að skoða aðra möguleika.“

Mikið um að fólk brenni út

Einnig er verið að kanna möguleika að fá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn til starfa á spítalanum. Það hefur mikið mætt á því starfsfólki sem þó er til staðar á spítalanum. Hefur orðið mikið brottfall úr þeim hópi?

„Já, það er hátt veikindahlutfall. Það er örugglega af ýmsum ástæðum. Ég held að þarna kemur álagið inn í og ég veit það að stéttarfélögin, þau hafa aldrei séð svona mikið af langtímaveikindum og það sjáum við líka á Landspítala. Þegar við komum út úr þessu kófi verður það heilmikil áskorun að vinda ofan af þessu“ segir Guðlaug Rakel.

Herða skrúfuna

En tekur hún undir orð Más Kristjánssonar, formanns farsóttarnefndar Landspítala að það þurfi að herða á samfélagslegum takmörkunum?

„Ég held að það liggi í augum uppi að það þurfi að gera það. Við erum með 1.000-1.200 smit á dag og það er allt of mikið. Þó að innlagnahlutfallið sé á bilinu 0,5-0,7 prósent þá eru þetta allt of margir.“ 

Hún segir að það myndi draga úr líkum á innlögnum því þó svo að veikindi séu vægari nú en áður hjá allflestum sé hópurinn sem smitast daglega það stór að fjöldi innlagna úr slíkum hópi sé meiri en spítalinn ræður við.

Til skoðunar er með hvaða hætti verður hægt að umbuna heilbrigðisstarfsfólki til að mæta auknu álagi. Þá er einnig viðbragðsáætlun til staðar til að bregðast við ef fleiri þurfa að leggjast inn á gjörgæslu. Hnífurinn stendur eftir sem áður þar í kúnni að mesta áskorunin er að manna þær stöður, ef til þess kemur.

Rætt var við Guðlaugu Rakel í Speglinum. Viðtalið má heyra hér að ofan.