Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Grafalvarleg einlægni

Mynd: Samsett / Angústúra

Grafalvarleg einlægni

13.01.2022 - 13:09

Höfundar

„Hvenær er texti krefjandi og hvenær er hann óskiljanlegur,“ spyr Gréta Sigríður Einarsdóttir eftir að hafa lesið ljóðabókina Verði ljós, elskan eftir Soffíu Bjarnadóttur. „Um leið og ég gefst upp fyrir alvöru skáldskaparins lumar textinn á ýmsu.“

Gréta Sigríður Einarsdóttir skrifar:

Einn af margnotuðum orðaleppum gagnrýnenda er þegar talað er um að bækur séu krefjandi, jafnvel að þær krefjist mikils af lesanda sínum. Ögrandi texti sem vekur mann til umhugsunar eða veitir manni nýja sýn getur verið áhrifamikill lestur en ég fæ stundum á tilfinninguna að þetta sé einnig notað þegar maður veit ekki alveg hvað er í gangi en grunar að það sé eitthvað mjög gáfulegt. Hvenær er texti krefjandi og hvenær er hann óskiljanlegur? Og hvernig kröfur getur lesandi gert á móti?

Soffía Bjarnadóttir hefur áður gefið út skáldsögur, ljóðabækur og leikrit en nýjasta ljóðabók hennar ber titilinn Verði ljós, elskan. Ljóðin í Verði ljós elskan eru fjölbreytt. Sum eru prósaljóð, mörg eru í tveggja eða þriggja línu órímuðum erindum og enn önnur eru í samtalsformi líkt og handrit að leikriti. Flest ljóðanna eru sögð í fyrstu persónu og innihalda ólgandi tilfinningar. Þau standa ein og sér en uppröðun þeirra gefur þó til kynna ákveðna frásagnarlega framvindu, sögu af ást, slitum, innri óróa og loks einhvers konar sátt. Nokkur ljóðanna hefjast á eða innihalda tilvitnanir í önnur skáld. Og skalinn er fjölbreyttur, allt frá Arthur Rimbaud til Kristínar Ómarsdóttur og Lönu Del Rey. 

Í ljóðunum tekst Soffía á við viðfangsefni á borð við ástina, sorgina, skáldskapinn og guð. Bókin hefst á tilvitnun í Lönu Del Rey, tónlistarkonuna sem kirfilega hefur skrifað sig inn í hlutverk konunnar sem þjáist en alltaf á ó svo rómantískan hátt. Upphafslínurnar vísa í vonina. Sum ljóðanna eru leikir að orðum og allt út í konkretljóð, meðan önnur daðra við súrrealismann. Gegnum alla bókina má finna fyrir ólgandi tilfinningum, allt frá heitustu ást til dýpstu örvæntingar. Í ljóðinu =DISORDER OF SELF-LOVE finnur ljóðmælandi fyrir óveðri í sér, jafnvel í logni og í LEYNDARMÁLUM ÁSTARINNAR #6 nær Soffía að koma fyrir í átta ljóðlínum frásögn af ástarsorg  í þremur þáttum. Í ljóðinu ÁÐUR FYRR, EF ÉG MAN RÉTT segir ljóðmælandi hjartnæma sögu af lífi hjóna, afa og ömmu. Eitt sérstaklega áhrifamikið ljóð er OPNAÐU MUNNINN / LOKAÐU MUNNINUM. Það er um skömmina, líkamlegar og andlega þjáningar þess sem skammast sín og frelsið og helsið sem fólgið er í því að segja eða segja ekki frá. 

Nokkur ljóðanna vísa innbyrðis hvort í annað. Sum bera bókstaflega sama titilinn, SUMMERTIME eða LEYNDARMÁL ÁSTARINNAR með tilheyrandi númeraröð. Önnur enduróma svipuð eða sömu stef, eins og tígrisdýrin sem endurspegla mannsins innra dýr. Svo er það ljósið. Það birtist fyrst í titli bókarinnar og svo aftur og aftur í formi kertaljósa, varðelds, sviðsljósa, vonarinnar í myrkrinu og ljóssins í mannssálinni. 

Þegar maður finnur sterkt fyrir myrkrinu, þá
gæti það verið ljósið að minna á tilveru sína.

Svona hefst ljóðið ÁMINNING sem segir okkur að þrátt fyrir öll átökin sé alltaf vonarglæta í myrkrinu. Það er meira að segja von í ljóði sem fjallar um mismunandi leiðir sem þekktir einstaklingar hafa farið til að fyrirfara sér og hlutina sem þeir notuðu til að gera það. 

Annað sem skýtur reglulega upp kollinum er guð og trúin. Hann eða hún er með viskírödd og býður upp á vín en á öðrum stað er guð ólétt kona í bláum kjól og ávarpar ljóðmælanda elskulega. Í ljóðinu VERÐI LJÓS #2 ávarpar ljóðmælandi einhvern sér nákominn sem er á niðurleið. Þá er það guð sem tekur í hnakkadrambið á þeim sem talar og minnir á nauðsyn þess að setja mörk. Í LEYNDARMÁL ÁSTARINNAR #3 tengir ljóðmælandi saman guð og ástina, hvort sem er til guðlegra eða mannlegra vera.

Til að trúa þarf að elska
Til að elska þarf að trúa

Textinn er á köflum brotakenndur og marglaga. Stundum kveikir svona texti ótal hugsanir og virkar eins og óreiðukennd kviksjá fyrir heilann. Stundum kviknar ekkert vegna þess að ég næ ekki neinni jarðtengingu. Ég skil ekki eða finn ekkert samhengi og brotin mynda aldrei heildstæða mynd. Brást ég þá sem kröfum textans sem lesandi? Var ég vegin og metin og léttvæg fundin?

Ég las bókina frá upphafi til enda og svo las ég hana aftur. Svo greip ég niður í textann hér og þar meðan ég skrifaði niður punktana sem ég vildi koma frá mér áður en ég las hana einu sinni enn. Við fyrsta lestur dæsti ég yfir tilgerðinni sem ég sá í ljóðum á borð við DREPTU MIG AFTUR, ELSKAN sem er í formi sviðshandrits, með ljósaleiðbeiningum og öllu. Í næsta lestri reif ég hár mitt yfir prósaljóðunum. Þeim sem byrja bara einhvers staðar, fara út um hvippinn og hvappinn og enda einhvers staðar allt annars staðar. VERÐI LJÓS, ELSKAN er háalvarleg, það er ekki snefill af galsa í bókinni þó það örli stundum á skraufþurrum húmor og það tekur mig fram á þriðja lestur að venjast grafalvarlegri einlægninni sem er alls óhrædd við að vera dramatísk. En það er janúar og það er stormur úti. Og um leið og ég gefst upp fyrir alvöru skáldskaparins lumar textinn á ýmsu. Það varð ljós, elskan. Ég fann fyrir myrkrinu í því að uppgötva að maður neyðist til að sleppa einhverjum sem er á leið til glötunar. Og svo ljósinu sem býr í endurfæðingunni þegar allar tilfinningarnar hafa verið leystar úr flækjunni. 

Ég er með höfuðið fullt af hugsunum eftir lesturinn. Ég er að hugsa um tilfinningarnar sem maður hleypir ekki dagsdaglega að, en sitja samt þarna einhvers staðar rétt fyrir innan hversdagsleikann. Dauðann sem er partur af lífinu, sársaukann sem er hluti af sigrunum, sárin sem gróa og gjöfina sem fyrirgefningin er. 

Verði ljós, elskan eftir Soffíu Bjarnadóttur er krefjandi verk, það get ég sagt af sannfæringu. Ég hreifst ekki af bókinni við fyrsta lestur, en ég lagði til atlögu við hana og sá ljósið.