Grænir og gulir reitir hist og her – nýjasta þráhyggjan

Vinsæll orðaleikur, Wordle, hefur tröllriðið internetinu á nýju ári.
 Mynd: Wordle

Grænir og gulir reitir hist og her – nýjasta þráhyggjan

13.01.2022 - 13:27

Höfundar

Síðustu vikur hefur nýr orðaleikur náð undraverðum tökum á netverjum um heim allan.

Wordle er einfaldur orðaleikur sem tröllriðið hefur internetinu á nýju ári.  Leikurinn minnir á gamla góða borðspilið Mastermind, þar sem er giskað á fimm stafa orð í sex tilraunum, í stað lita og staðsetningu pinna. Í hverju skrefi eru gefnar vísbendingar, í formi grænna, gulra og auðra reita, sem gefa til kynna hvort stafirnir séu í orðinu og hvort þeir séu á réttum stað.

Flóknara er það ekki en leikurinn hefur orðið að þráhyggju hjá milljónum spilara sem geta ekki á sér setið og gorta yfir góðum árangri á samfélagsmiðlum.

Nýr dagur, nýtt orð

Á hverjum degi býðst fólki að giska á nýtt orð. Orðið er það sama fyrir alla þátttakendur og eftir að þeim hefur tekist, eða mistekist, að giska rétt þurfa þeir að gjöra svo vel og bíða til næsta dags eftir nýju orði.

Einfaldleiki leiksins og þessi innbyggði skortur, þar sem ekki koma ný orð á færibandi innan hvers dags, hefur orðið kveikjan að geysimiklum vinsældum. Leikurinn er ókeypis og sem stendur hyggst hönnuður hans ekki hagnast á honum.

Varð til sem kærleiksvottur

Josh Wardle heitir maðurinn sem bjó til leikinn, forritari búsettur í Brooklyn í New York. Leikurinn var í fyrstu hugsaður sem kærleiksvottur, segir Wardle í viðtali í New York Times, til kærustu hans sem hann vissi að hefði dálæti af leikjum sem þessum. Þau spiluðu hann fyrst um sinn sér til skemmtunar en smám saman fjölgaði notendum.

Þegar bætt var við möguleika á að deila á samfélagsmiðlum hversu vel eða illa gekk að komast að réttri niðurstöðu fór leikurinn að ná til sífellt fleiri. Í nóvember voru daglegir notendur 90 talsins, í byrjun janúar voru þeir um 300.000 og um síðustu helgi um tvær milljónir.

Íslensk eftirlíking

Þessi hraða útbreiðsla kom Wardle í opna skjöldu. Í viðtali í The Guardian segist hann finna til ábyrgðar gagnvart þeim sem spila leikinn. „Þau eiga inni hjá mér að ég haldi þessu gangandi og sjái til þess að það virki almennilega.“

Vinsældirnar hafa orðið til þess að eftirlíkingar hafa skotið upp kollinum. Til að mynda ein íslensk sem nefnist Orðla. Einnig hafa óvandaðir séð sér leik á borði og gefið út gróðavæddar útgáfur sem mörgum þykir ekki til eftirbreytni.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Eilíf hringrás martraða og óstöðvandi drápsmaskínur