Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

236 fá listamannalaun

Mynd með færslu
Andri Snær og Guðrún Eva eru meðal þeirra listamanna sem fá tólf mánuði í listamannalaun. Mynd: - - RÚV

236 fá listamannalaun

13.01.2022 - 15:50

Höfundar

Úthlutunarnefndir Launasjóðs listamanna hafa lokið störfum og fá 236 listamenn starfslaun. Til úthlutunar voru 1.600 mánuðir. Rúmlega 1.100 umsóknir bárust og var sótt um 10.743 mánuði. Starfslaun listmanna eru 490 þúsund krónur á mánuði og eru það verktakagreiðslur.

Listann í heild má sjá hér.

Flestir mánuðir eru til úthlutunar hjá launasjóði rithöfunda, 555, og síðan hjá launasjóði myndlistarmanna, 435.

Af þeim rithöfundum sem fá listamannalaun í tólf mánuði má nefna Bergsvein Birgisson sem hefur verið talsvert í umræðunni eftir að hafa sakað seðlabankastjóra um ritstuld. Þar eru líka Elísabet Kristín Jökulsdóttir og Andri Snær Magnason, Gerður Kristný og Hallgrímur Helgason, Eiríkur Örn Norðdahl og Guðrún Eva Mínervudóttir.

Sara Riel og Egill Sæbjörnsson, Sigurður Guðjónsson og Steinunn Guðlaugsdóttir eru meðal þeirra myndlistarmanna sem fá tólf mánaða listamannalaun.

Magnea Einarsdóttir er eini hönnuðurinn sem fær tólf mánaða listamannalaun. Fæstir mánuðir eru til úthlutunar úr launasjóði hönnuða, þeir eru 50.

Eftir er að ganga frá úthlutun til sviðslistahópa. Nanna Kristín Magnúsdóttir, Jón Atli Jónasson og Kolfinna Nikulásdóttir fá þrjá mánuði hvert úr launasjóði sviðslistafólks. 

Anna Gréta Sigurðardóttir, Benedikt Kristjánsson og Margrét Jóhanna Pálmadóttir eru þeir tónlistarflytjendur sem fá tólf mánuði og Benedikt Hermann Hermannsson, Haukur Þór Harðarson og Ingibjörg Guðný Friðriksdóttir fá tólf mánuði úr launasjóði tónskálda.