Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Um 600 manns í einangrun eða í sóttkví

12.01.2022 - 13:06
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Starfsmönnum skóla- og frístundasviðs fjölgar sem komast ekki til vinnu vegna COVID-19. .Á skömmum tíma hefur staðan versnað og erfitt er að halda úti fullri þjónustu.

„Forföll vegna Covid eru um 10 prósent sem þýðir að það eru um 600 starfsmenn hjá okkur í einangrun eða í sóttkví.  Til viðbótar eru forföll útaf öðrum veikindum og aðstæðum þannig að það er víða erfitt um vik að halda úti fullri þjónustu", segir Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs.

Hann segir að róðurinn hafi verið að þyngjast mikið á síðustu dögum.  „Í byrjun árs voru forföllin um sjö prósent vegna Covid en eru 10% núna. Við fylgjumst mjög vel með en smitum hefur verið að fjölga. Þau eru  ívið fleiri hjá börnum en  hjá starfsfólki" Hafiði þurft að loka enhverjum leikskólum?  „Það er mjög sjaldgæft að við þurfum að loka leikskólum en vissulega hefur orðið að loka deildum. Starfsfólk leikskóla hefur sinnt sóttvörnum gríðarlega vel og búið til góð sóttvarnarhólf.  Þó svo komi upp smit er ekki allur leikskólinn undir. Auðvitað höfum við áhyggjur af stöðunni. Okkar leiðbeiningar til stjórnenda er að sýna meiri varúð og skoða hópinn mjög vel uppá hvaða upplýsingar eru gefnar til rakningateymisins um mögulega smitgát eða sóttkví", segir Helgi Grímsson.

Arnar Björnsson