„Það er ekki búbbla á þessu hóteli“

Mynd: EPA / EPA

„Það er ekki búbbla á þessu hóteli“

12.01.2022 - 11:47
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari íslenska karlandsliðsins í handbolta furðar sig á því af hverju venjulegir ferðamenn fái að valsa um grímulausir á hótelum handboltaliðanna sem keppa á EM í Ungverjalandi og Slóvakíu. Hann segist hafa átt von á því að koma í verndaðra umhverfi í Búdapest.

Margir leikmenn liða á EM hafa smitast af COVID-19 í aðdraganda mótsins og því skipta sóttvarnir sköpum. Íslenska liðið skermdi sig alveg af í Reykjavík meðan liðið æfði á Íslandi. En nú virðist annað vera upp á teningnum í Búdapest, þangað sem íslenska liðið kom í gær.

„Það er ekki búbbla á þessu hóteli. Það þýðir að við erum auðvitað að vissu leyti útsettir hérna. Það er fólk hérna sem eru bara venjulegir túristar. Þannig við erum að reyna að passa okkur og erum alltaf að tala um þetta og huga að sóttvörnum sjálfir. En þetta er ekki einfalt,“ sagði Guðmundur í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Hann segir það koma á óvart hvernig staðið er að málum í Ungverjalandi. Hann átti von á því að vera í verndaðra umhverfi en raun ber vitni. „Já, ég átti von á því. Ég verð að játa það. Ég átti von á því að þetta yrði svipað og í Egyptalandi. Þá vorum við í búblu og þeir tóku mjög fast á þessu Egyptar. Ég átta mig ekki alveg á ástæðunum. En þetta er svona,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson.

EM karla í handbolta 2022
 Mynd: Rúv

Tengdar fréttir

Handbolti

Kvarta undan sóttvörnum á EM