„Hér er bara fólk labbandi út og suður“

Mynd: EPA / EPA

„Hér er bara fólk labbandi út og suður“

12.01.2022 - 15:19
„Það gekk ýmislegt vel sem við vorum að gera sóknarlega á æfingu dagsins, en smá hnökrar á vörninni. En það verður lagað fyrir morgundaginn,“ sagði Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari Íslands í handbolta í viðtali við RÚV í dag. Tveir dagar eru í fyrsta leik Íslands á EM í Búdapest.

Ísland mætir Portúgal í fyrsta leik sínum á föstudag klukkan 19:30. „Það eru svona nokkrar ákvarðanir sem við þurfum að taka núna. Hvernig hópurinn muni líta út og hvernig við byrjum. Við erum komnir nokkuð langt þar. Síðan erum við búnir að negla niður sóknarleikinn okkar. Hann liggur fyrir alveg. Svo eru svona smáatriði sem við erum að velta fyrir okkur varnarlega hvernig við leysum. Það er eðlilegt. En við höfum æfinguna á morgun til að leysa það. En þetta gengur vel,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur kvartaði undan skorti á sóttvörnum á hóteli íslenska landsliðsins í Búdapest. Sú kvörtun rímar við athugasemdir Toni Gerona, landsliðsþjálfara Serbíu og Nikola Karabatic í franska landsliðinu um það sama. Guðmundur var spurður út í sóttvarnirnar í viðtalinu.

„Kemur mér mjög á óvart og í raun óskiljanlegt“

„Ég get ekki séð að það sé búbla hérna. Ekki miðað við það sem við höfum upplifað áður. Hér er bara fólk labbandi út og suður sem eru gestir á hótelinu. Þeir eru svo ýmist með grímu eða ekki. Við förum kannski inn í lyftu og þar er eitthvað fólk sem eru bara almennir gestir á hótelinu. Þannig það er engin búbla hér að neinu viti. Það kemur mér mjög á óvart og í raun óskiljanlegt. Við erum búnir að leggja mikið á okkur og það hefur kostað HSÍ gríðarlegar fjárhæðir að hafa liðið í vinnusóttkví eða svona búblu. Við erum búnir að leggja á okkur mikið. Meira að segja fyrir jól var maður búinn að einangra sig. Þannig maður hefði nú búist við að menn myndu vanda betur til verka hér. Ég satt best að segja skil þetta ekki. En svona er þetta.“

Allt viðtalið við Guðmund má sjá í spilaranum hér efst í fréttinni.