Hugmynd um vistaskipti kviknaði í líkbílnum

Grétar Halldór Gunnarsson starfar nú í eitt ár sem prestur á Ísafirði - Mynd: Halla Ólafsdóttir / RÚV

Hugmynd um vistaskipti kviknaði í líkbílnum

09.01.2022 - 09:11

Höfundar

Í byrjun árs 2020 jarðsöng séra Grétar Halldór Gunnarsson, prestur í Grafarvogskirkju, afa sinn á Ísafirði ásamt sóknarprestinum þar séra Magnúsi Erlingssyni. Í líkbílnum á leiðinni inn í kirkjugarð kviknaði sú hugmynd að kannski ættu þeir Magnús að prófa að hafa kirkjuskipti. „Þá sagði Magnús: Ja, ég get sagt þér frændi. Ef þú ert þá er ég til, rifjar Grétar upp, „og meðhjálparinn var í bílnum og spurði okkur hvort þetta væri þá ákveðið.“

Rúmu ári eftir samtalið í líkbílnum hringdi Grétar í Magnús og það varð til þess að þeir hafa nú vistaskipti. „Reglur þjóðkirkjunnar gera ráð fyrir því að vistaskipti séu möguleg ef báðar sóknarnefndirnar samþykkja það og biskup Íslands,“ segir Grétar í viðtali í Sögum af landi á Rás 1. „Magnús er þetta árið í Grafarvogskirkju og ég hér við Ísafjarðarkirkju.

„Við erum kirkjugarðarnir og útfararþjónustan“

Það kemur á daginn að störf þessara tveggja kollega eru mjög ólík. Grafarvogskirkja er í stærstu sókn landsins og meira en átján þúsund manns búa innan sóknarmarka hennar. Þar starfa fjórir prestar, tveir organistar, tveir kirkjuverðir, æskulýðsfulltrúar og ritari. „Þegar maður kemur hingað á Ísafjörð þá er presturinn miklu meira einn, það er organisti og kirkjuvörður en verkin falla óneitanlega á færri hendur. Vissulega er hérna miklu færra fólk en það kemur mikið á óvart hversu miklu munar um þetta fólk og stofnanir sem maður hefur í kringum sig í Reykjavík. Á Ísafirði erum við ekki með sérstaka útfararþjónustu, við erum ekki með sérstaka kirkjugarða. Við erum kirkjugarðarnir og útfararþjónustan.“

Raðar stólum, kaupir kex og sér um athafnir

„Ég man til dæmis þegar ég var að byrja hérna með kirkjuskólann, sem Reykvíkingar þekkja sem sunnudagaskólann. Hér er hann á virkum degi og heitir kirkjuskólinn, þá fólst það til dæmis í því að ég þurfti að raða stólum, kaupa kaffi, kaupa djús, kaupa kex, prenta út myndir til að lita, gera liti tilbúna, undirbúa efni og setja upp dagskrána. Þannig að undirbúningurinn var miklu meiri, eins og ég segi, frá gólfinu og upp,“ segir Grétar. Í Grafarvogskirkju er æskulýðsfulltrúi sem sér að miklu leyti um barnastarfið.

Ekki svo einfalt að segja að færra fólk geri starfið léttara

„Það hefur lengi verið samtal og stundum smá rígur, milli presta sem starfa innan og utan höfuðborgarsvæðisins. Þeir sem starfa á höfuðborgarsvæðinu benda á það að það sé miklu fleira fólk per prest á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Miðað er við það að það séu fjögur til fimm þúsund manns per prest í Reykjavík á meðan á sumum stöðum á landsbyggðinni er þetta kannski um 2.500 manns og jafnvel allt niður í 800 manns per prest. Þannig hafa margir giskað á að það sé miklu auðveldara að vera prestur á landsbyggðinni. En það er ekki alveg svona einfalt, hef ég komist að,“ segir Grétar. 

Hér er hægt að hlýða á viðtalið í heild sinni í spilara RÚV.

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Séra Magnús Erlingsson hefur verið prestur á Ísafirði í þrjátíu ár.

„Alltaf á vakt“ í þrjátíu ár

Magnús hefur verið prestur á Ísafirði í þrjátíu ár. Nágrannaprestar hafa leyst hann af í sumarfríum. „En þegar maður er á staðnum þá er maður alltaf „á vakt“ eins og það heitir og það er hægt að hringja í mann.“ Það kveður því við annan tón hjá Magnúsi sem hefur starfað í Grafarvogskirkju undanfarna mánuði. „Ég hef í fyrsta lagi miklu minna að gera og hef þar af leiðandi notið þess að lesa bækur og svona, í meiri mæli en nokkru sinni fyrr. En það er jú, töluvert rólegra að vera hér.“

Starf prestsins persónuleg þjónusta

Það gildir þó ekki um almennt um það að vera prestur í Grafarvogskirkju. „Þetta er persónuleg þjónusta og fólk leitar til prests sem það þekkir og hér er ég alveg óþekktur og þá er þetta róleg innivinna. Fyrir mig er þetta ákveðin endurmenntun, þessi vetur.“ Hann segir að það sé gott að breyta til, sama hvert starfið, og sjá hvað aðrir eru að gera. Það auki víðsýni og það sé ákveðin endurmenntun fólgin í því.

Áhugamaður um bækur og vín

Loks hefur Magnús tíma til að lesa bækur. „Ég á náttúrlega allt of mikið af bókum. Ég hef áhuga á því að fara í bókabúðir og ég hef reyndar líka áhuga á því að fara í vínbúðina og kaupa rauðvín og svoleiðis. Konan mín segir að ég hafi einmitt valið mér starf, eina starfið í heiminum, þar sem á borðinu er bæði bók og messuvín,“ segir Magnús og hlær.

Maður þroskast á að umgangast alls konar fólk

„Það sem hefur kannski mest breyst á þessum þrjátíu árum er ég sjálfur. Með árunum verður maður rólegri og umburðarlyndari,“ segir séra Magnús. „Og það sem er svo gott við prestsstarfið er að maður er svo mikið með alls kyns fólki og maður þroskast af því að vera með fólki í gleði og sorg og vanda og velgengni. Þá breytist maður sjálfur.“

Aldrei trúað því að hann sæti heima á jólunum

Þótt haustið hafi byrjað á nokkuð hefðbundinn hátt hefur tími þessara vistaskipta verið nokkuð óvenjulegur. „Það er svolítið skrítið að hugsa til þess að það eru komnir tvennir páskar og tvenn jól, sem hafa ekki verið opnar messur, heldur bara gert eitthvað á netinu. Ég hefði aldrei haldið að slíkur tími myndi koma að maður sæti bara heima á jólunum.“

Reykjavík í raun dreifbýli en Ísafjörður þéttbýli

„Ég er búinn að komast að því að Reykjavík er í rauninni dreifbýli. En Ísafjörður er þéttbýli. Á Ísafirði get ég gengið í vinnuna og ég get farið til læknis gangandi og ég get farið og verslað, ég get farið allt gangandi á tíu mínútum. Hér þarf ég að fara allt á bíl og það tekur hálftíma að komast á hvern stað. Þannig að það er augljóst að þetta er dreifbýli, það er allt svo dreift.“

Gætir þú hugsað þér að vera áfram í Reykjavík?

„Held ekki, ef ég að vera alveg hreinskilinn, en auðvitað getur manni liðið alls staðar vel, það er ekki það en ég held ég myndi frekar vilja kjósa að fara aftur vestur. Eins og til stendur svo sem,“ segir Magnús Erlingsson en vistaskiptum þeirra Grétars lýkur í ágúst. 

Hér má hlýða á þáttinn Sögur af landi á Rás 1 í heild sinni.