Oxycontin við verkjum, timburmönnum og húsmæðrastressi

Mynd: Hulu / Hulu

Oxycontin við verkjum, timburmönnum og húsmæðrastressi

08.01.2022 - 14:00

Höfundar

Dopesick er ný þáttaröð sem segir frá uppruna Oxycontin, misvísandi markaðssetningu hinnar fégráðugu Sackler-fjölskyldu og ópíóíðafaraldrinum. Júlía Margrét Einarsdóttir rýnir í þættina.

Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar:

Við höfum flest einhvern tíma upplifað líkamlegar kvalir á eigin skinni og jafnvel oft á lífsleiðinni. Stundum sakleysislegar, eins og bakverk því dýnan er aldrei nógu góð, höfuðverk út af öllu tanníninu í rauðvínsbelju gærkvöldsins og tannpínu því tannþráðurinn gleymist. Magaverk jafnvel eftir að klára af disknum með rétti sem er merktur með fimm chilli-um á matseðlinum, sataníska túrverki og svo framvegis. Svo eru hinir sem eru alvarlegir. Hvað sem þeim veldur og hversu skuggalegar ástæður þeirra eru, í miðjum vítiskvölum verður ansi freistandi tilhugsunin um töfralyf sem frelsað gæti undan öllum óþægindum og leyft þeim sem þjáist að svífa inn í kvalarlausa vellíðan.

Að bryðja oxy eins og smartís

Það eru vissulega til ýmiss konar efnablöndur til inntöku sem geta látið mestu verki hverfa á svipstundu og veitt jafnvel fró og gleði í verstu aðstæðum. En slíkum lausnum fylgja flækjur. Verkjalyfin sem hægt er að kaupa í apótekinu án lyfseðils gera takmarkað og þau sem sterkari eru, þeim er aðeins ávísað til þeirra sem virkilega þurfa á þeim að halda og undir ströngu eftirliti lækna því þau er hægt að misnota og oft með skelfilegum afleiðingum.

Um miðjan tíunda áratug, árið 1996, var það hinsvegar kynnt til leiks, þetta töfralyf sem fólk dreymdi um. Pillan sem átti að vera svarið við þessu öllum kvillum stórum og smáum. Skaðlaus, ekki ávanabindandi en upplögð til notkunar til að losna við hvaða verki sem er, tannpínu, húsmæðrastress, timburmenn og verki eftir slys og sjúkdóma. Ekkert að því að taka stærri og stærri skammt, borða það eins og smartís við minnsta tilefni. Oxycontin.

Sögðu að það væri ekki ávanabindandi

Það var bandaríska Sackler-læknisfræðifjölskyldan, sprenglærð og moldrík en nokkuð ósvífin, sem kynnti lyfið til leiks. Því var tekið treglega til að byrja með enda var fólk hikandi við að nota morfínskyld lyf eftir faraldurinn sem geisaði í Bandaríkjunum upp úr aldamótum.

Fjölskyldufyrirtækið, sem kallaðist Purdue Pharma, setti lyfið samt á markað og fór í herferð til að sefa efasemdirnar þar sem þau héldu því fram að lyfið væri alls ekki ávanabindandi eins og morfínið. Fljótlega fóru læknar að kaupa þessar fullyrðingar og þá var fjandinn laus. 

Oxycontin-derhúfur og -bangsar í barnaherbergjum

Það voru þrír Sackler-bræður sem ráku fyrirtækið og fjölskyldan markaðssetti lyfið sem svar við öllum vandamálum. Sölumenn þeirra fengu prósentur fyrir að fá lyfið uppáskrifað til sem flestra sjúklinga og farið var í dreifingu á hinum ýmsa varningi sem auglýsti lyfið. Fólk gekk um með oxycontin-derhúfur og oxycontin-tuskudýrum var jafnvel dreift í svefnherbergi barna.

Allir voru með til að byrja með, lyfið virtist enda frábært í fyrstu en fljótlega kom í ljós að oxycontin væri síður en svo hættulaust. Sjúklingar urðu háðir því og þurftu stærri og stærri skammta þar til líf þeirra var komið algjörlega úr böndunum, glæpatíðni jókst og líf fjölmargra endaði í gröfinni langt fyrir aldur fram. Talið er að rekja megi ópíóíðafaraldurinn, sem hófst í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum, til neyslu oxycontin. Faraldurinn hefur síðan breiðst út um heiminn, meðal annars til Íslands.

Lygar og misvísandi markaðssetning

Sackler-fjölskyldan er enn tæpum þremur áratugum síðar á meðal þeirra ríkustu í Bandaríkjunum, þó sótt hafi verið að þeim árum saman. Sagan er óhugguleg og siðleysi hinnar fégráðugu og moldríku fjölskyldu virðist hafa sér lítil takmörk.

Ungt fólk lét lífið í hrönnum vegna fíknar en það stöðvaði ekki græðgina. Þrátt fyrir að vera fullkomlega meðvituð um vandamálin sem fylgja lyfinu héldu þau lengi áfram að auglýsa það af krafti og græddu milljarða.

Fyrirtækið hefur síðan verið lögsótt fyrir lygar og misvísandi markaðssetningu ótal sinnum síðustu ár og varð gjaldþrota í september 2019 en bankabókin þeirra er enn stappfull og það flæðir úr veskjunum. Minna virðist bóla á samviskunni þó þau haldi sig til hlés að mestu enda ekki vinsælasta fólkið í Bandaríkjunum.

Þættirnir eru listaverk

Í júní árið 2020 var tilkynnt að Hulu hygðist framleiða glænýja þáttaröð sem fjallar um uppruna þessa meinta töfralyfs og afleiðingarnar sem dreifing þess hefur haft. Þættirnir byggja á sannsögulegri bók sem nefnist Dopesick, Dealers, Doctors and the Drug company that addicted America eftir Beth Macy. Þættirnir eru eftir Danny Strong sem skrifar og leikstýrir, voru þeir frumsýndir í október á síðasta ári og hafa fengið afar góðar viðtökur. 

Þættirnir eru átta talsins og segja söguna frá ýmsum hliðum, frá lækninum sem byrjaði í góðri trú að ávísa lyfjunum og sá svo sjúklingana sína ánetjast og jafnvel deyja. Frá ungri lesbískri konu sem starfar í námu og fær lyfin uppáskrifuð vegna meiðsla sem hún verður fyrir í námunni, frá fólkinu sem tók þátt í herferðinni og hjálpaði Purdue pharma að dreifa lyfinu, fíkniefnalögreglunni, Sackler-fjölskyldunni og lögfræðingunum sem fóru í mál við þau til að reyna að stöðva útbreiðslu lyfsins.

Hér er semsagt ekkert léttmeti á ferð og framvindan getur verið ansi þung, efnistökin enda vægast sagt átakanleg - en þættirnir eru listaverk. Þegar best er, sjónvarp eins og gott og það getur orðið.

Sannfærandi persónusköpun og frábær leikur

Persónusköpunin er sannfærandi og eilífðartöffarinn Michael Keaton er gjörsamlega magnaður í hlutverki læknisins sem ávísar lyfinu og þarf svo að horfa ráðalaus upp á afleiðingarnar. Orkan hans er rétt passív, hann er einrænn og þungur á brún eins og alvöru lífsþreyttur heimilislæknir sem brennur aðeins fyrir starf sitt og velferð sjúklinganna sem hann veit ekki að hann er að setja í mikla hættu.

Rosario Dawson er einnig góð í hlutverki fíkniefnalögreglu sem verður heltekin af hugmyndinni um að stöðva dreifingu lyfsins, en stærstan leiksigur á bandaríska leikkonan Mare Winningham sem fer með hlutverk móður stúlkunnar sem slasast í námuslysinu.

Örvæntingunni sem grípur um sig bæði þegar hún kemst að því að dóttir hennar er lesbía og svo hversu litlu það skiptir þegar barnið hennar er að hverfa inn í sjúkan heim fíkninnar er virkilega vel skilað. 

Erfitt í miðjum sálardal og svörtu skammdegi

Það er mikið tímaflakk í þáttunum en áhorfandinn er reglulega látinn vita hvaða árs skuli nú hverfa til eða hvert skuli spólað áfram, allt frá uppgötvun lyfsins til málsóknanna sem fóru fram eftir aldamótin.

Stundum getur verið erfitt að missa ekki þráðinn þegar spólað er fram og til baka en hann finnst fljótlega aftur. Fyrst og fremst er algjör unun að horfa á gæðin, leikinn, sviðsmyndina og kvikmyndatökuna sem leyfir sér að vera tilraunakennd til að ýta undir dramatíkina en verður aldrei tilgerðarleg. Samtölin eru trúverðug og vel skrifuð, karaktersköpunin lýtalaus og hver einasta persóna sem kynnt er til leiks hefur dýpt og er marglaga. Svona sjónvarpsefni er sannkölluð veisla.

Harmurinn er þó áþreifanlegur, það ber að hafa í huga, og þetta er alls ekki þáttur til að horfa á í erfiðustu sálardölum eða svartasta skammdeginu, nema kvalalostinn sé því meiri. Ég mæli þó fullkomlega með Dopesick, þetta er algjört skylduáhorf.

En ég mæli líka með að hafa léttmeti eins og Paddington 2 tilbúna um leið og síðasti þátturinn er búinn, til upprifjunar um það sem er saklaust og fallegt í skuggalegum heimi græðgi, örvætningar og illsku.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Undralyfið“ sem olli ópíóíðafaraldrinum