„Hún stóð upp við rimlana og hvíslaði: mamma“

Mynd: Friðrik Agni Árnason / Aðsend

„Hún stóð upp við rimlana og hvíslaði: mamma“

08.01.2022 - 10:37

Höfundar

„Þetta er drottningin okkar, hún Maya,“ stóð í bréfi sem móðir Mayu, fyrstu stúlkunnar sem var ættleidd opinberlega til Íslands frá Asíu, fékk sent frá munaðarleysingjahæli á Indlandi árið 1968. Móðir Mayu er frá Tékkóslóvakíu en alin upp í Þýskalandi. Hún flutti til Þýskalands þegar Maya var níu ára og barnið varð eftir. Barnabarn hennar segir söguna af mæðgunum.

Maya Jill Einarsdóttir er fyrsta barnið sem var opinberlega ættleitt til Íslands frá Asíu. Hún fæddist á Indlandi árið 1966 en stelpan fannst í borg sem tilheyrir Mumbai. Tveir ókunnugir menn fundu hana aðeins nokkurra vikna gamla innan um önnur götubörn og fóru með hana á heimili fyrir munaðarlaus börn í Mumbai. Þremur árum síðar var hún ættleidd til Íslands og fékk afmælisdaginn 28. október. Móðir hennar, Liselotte Bensch Fuchs, er fædd í Tékkóslóvakíu en flúði þaðan til Þýskalands. Hún bjó á Íslandi þegar hún ættleiddi Mayu. Friðrik Agni Árnason, sonur Mayu og barnabarn Liselotte, segir sögu mæðgnanna í þættinum Ugla sat á kvisti á Rás 1.

Hélt með systur sinni til Íslands 1963

Liselotte flutti með fjölskyldunni frá Tékkóslóvakíu til Berlínar og var faðir hennar undir eftirliti stjórnvalda. Þetta voru miklir óróatímar og lenti faðir hennar nokkrum sinnum í fangelsi fyrir að smygla fólki frá austur Berlín til vesturs. Svo flutti litla fjölskyldan til Dusseldorf þar sem hjónin bjuggu allt sitt líf í nýbyggðri blokk sem hýsti tuttugu og eina flóttafjölskyldu. „Allir þekktust og hjálpuðust að. Þau þekktu flóttalífið og vissu hvernig best væri að hjálpa.“

Sautján og átján ára þurftu Liselotte og systir hennar að byrja að vinna fyrir sér og flytja heiman því það var þröngt í búi. Þá var stungið upp á því að þær færu í að læra hjúkrun. Þær fengu vinnu á spítala og þar kynntist Liselotte konu sem átti dóttur sem hafði ákveðið að taka sér ársfrí frá vinnu í banka og flytja til Íslands til að starfa sem sjúkraliði. Liselotte var forvitin og fékk sjálf heimilisfangið hjá Landakotsspítala. Þangað skrifaði hún bréf og bauð fram starfskrafta sína og systur sinnar. Henni var strax svarað að þær væru velkomnar og þær héldu af stað þangað árið 1963.

Kynntist eldri manni sem söng fyrir íbúana

Systurnar nutu þess sem Ísland hafði upp á að bjóða og flugu meðal annars yfir landið og skoðuðu Surtseyjargosið. Liselotte fannst Íslendingar ekkert sérstaklega almennilegir, síst eldra fólk og hún lenti í að vera kölluð helvítis útlendingur.

En þrátt fyrir þetta kunni hún ágætlega við sig. En eftir ágreining á Landakoti um launakjör var hún látin fara. Hún fékk þá vinnu á Grund þar sem hún kynntist Einari Sturlusyni sem var töluvert eldri en hún. Einar starfaði þar og sá meðal annars um að skemmta íbúum með söng. Vináttan breyttist svo í annað og meira. Parið talaði þýsku saman sín á milli og síðar einnig við dóttur sína.

Mundi eftir frásögn um munaðarleysingjahæli

Þegar Liselotte var 27 ára var hún sú eina í vinahópnum á Íslandi sem átti ekki barn. Hana hafði lengi langað að láta gott af sér leiða en vissi ekki hvernig hún ætti að fara að því. Svo mundi hún skyndilega eftir því þegar hún kynntist indverskri hjúkrunarkonu í Dusseldorf sem kvaðst hafa starfað sem sjálfboðaliði á munaðarleysingjahæli. Liselotte ákvað að skrifa munaðarleysingjahælinu bréf.

Nunnurnar þar svöruðu henni um hæl og sögðu að ættleiðingaferlið væri flókið, það tæki tíma og kostaði sitt. En Liselotte lét slag standa og eftir eins og hálfs árs ferli var hún boðuð í danska sendiráðið þar sem hún hitti danskan ráðherra. Hann sagði henni að þetta væri mögulegt en benti á að hér á landi byggju ekki margir litaðir einstaklingar og það væri ekki víst að Íslendingar myndu taka barninu vel. „En ég var sannfærð um að það yrði ekki vandamál, enda kom hið gagnstæða í ljós þegar á hólminn var komið. Fólk var alveg heillað af Mayu,“ rifjar Liselotte upp.

Valdi barnið með lokuð augu

Þegar hún fékk fregnir af því að hún ætti von á stelpu voru henni sendar myndir af nokkrum stúlkum til að velja úr. Hún var ekki viss hvernig ætti að velja. „Ég vildi stelpu og það voru bara stelpur í boði en það skipti engu máli fyrir mig hvort hún væri eins eða tveggja ára. Ég var í algjörum vandræðum,“ rifjar Liselotte upp. Hún skoðaði myndirnar oft og ákvað svo að velja þær með ugla sat á kvisti. „Ég valdi myndina með lokuð augu, skellti í umslag og sendi til baka. Ég fékk svo svarið: Já, þetta er drottningin okkar hún Maya.“

Mynd með færslu
 Mynd: Friðrik Agni Árnason - Aðsend
Nýleg mynd af Friðriki með móður sinni Mayu.

Leigubílstjórinn vildi taka þátt í góðverkinu og bauð þeim farið frítt

Liselotte hélt til foreldra sinna í Dusseldorf í heimsókn á meðan hún beið frekari fregna og kvöld eitt barst henni loks símskeyti þar sem stóð að Maya væri væntanleg til Amsterdam morguninn eftir. Það gengu ekki lestir eða strætó beint til Amsterdam á þessum tíma svo Liselotte og móðir hennar hringdu í leigubílstjóra og báðu hann að skutla sér. „Hann spurði: Eruð þið vissar, vitið þið hvað það kostar? En okkur var alveg sama um það. Við þurftum bara að komast til Amsterdam,“ segir Liselotte.

Þær sóttu drottnignuna, hana Mayu, úr fanginu á hjúkrunarkonu sem hafði fylgt henni á leiðinni og létu leigubílstjórann bíða á meðan. Sá varð nokkuð hvumsa þegar hann sá hvernig þeim fjölgaði fyrir bakaleiðina. „Hann var afar forvitinn og við sögðum honum alla söguna,“ rifjar Liselotte upp. Leigubílstjórinn var upprifinn yfir sögunni um ættleiðinguna og barnið. „Þetta getur ekki verið, sagði hann. Svona gott fólk er ekki til. Svo bætti hann við að við þyrftum ekki að greiða fyrir farið,“ segir Liselotte. „Þetta er minn hluti í þessu góðverki,“ bætti bílstjórinn við.

Skildi að hún væri komin heim

Um tíu tímum eftir heimkomu segir Liselotte að Maya hafi áttað sig á því að hún væri komin heim. „Þá byrjaði hún að leiða mig, og okkur öll. Hún sagði alltaf: Leiða mig. Þannig gekk það svo mánuðum skipti,“ rifjar hún upp. Þegar hún lagði barnið í rúmið stóð hún upp við rimlana og hvíslaði: „Mamma.“

Mægðurnar voru strax samrýmdar. Á Íslandi göptu margir yfir Mayu og dökku hörundi hennar, en barnið var fljótt að aðlagast og eignast vini og allir vildu leika við hana. „Ég átti auðvelt með að eignast vini sem barn. Þau voru forvitin um hvað ég væri dökk og með dökkt hár en það var engin stríðni eða neitt svoleiðis,“ segir Maya.

Í leikskólanum fékk hún súrmjólk í hyrnu og söng í rólunum og fór í sund með dóttur nágrannakonunnar. Æskan var ljúf á Laugarásveginum þar sem fjölskyldan bjó. Maya segir að það hafi alltaf verið líf í kringum sig og hún upplifði enga stríðni, bara forvitni. Krakkarnir fóru í Yfir, Brennó og Teygjutvist og út að renna sér í brekkunum. Svo var kallað á hana og dreng sem bjó á sömu hæð í átta hæða blokkinni sem Maya bjó í: „Þórir og Maya, inn að borða!“

Hamingjuríkar stundir í barnaleikjum og hjá ömmu og afa í Þýskalandi

Þetta voru á meðal bestu stunda sem Maya upplifði en henni leið líka alltaf vel þegar hún fór í heimsókn til ömmu og afa í Dusseldorf á sumrin. „Það er sterkt í minningunni, amma og afi og hvernig þau voru. Þau voru yndisleg og þetta var yndislegur tími. Það eru eiginlega hamingjusömustu stundirnar.“

Samband mæðgnanna Mayu og Liselotte var afar sterkt. „Hún var svo kelin, alltaf að knúsa mig og kjassa. Hún hugsaði líka vel um mig, alltaf að sauma og prjóna á mig. Ákveðin, nei var nei, en hún segir mér að ég hafi verið auðvelt barn og þægileg,“ segir Maya. „Ég var bara eins og dúkka, gerði það sem mér var sagt, og hún hugsaði ofboðslega vel um mig eins og mæður eiga að gera.“

Varð þreytt á Íslandi og sótti um skilnað

Föður sínum Einari lýsir Maya svo sem miklum stríðniskarli sem sagði brandara. En þegar Maya var á tíunda ári var djúpt skarð hoggið í tilveru hennar. Liselotte var orðin þreytt á lífinu á Íslandi og hún sótti um skilnað.

„Veðrið á Íslandi var slæmt, það kom varla sumar í fimm eða sex ár. Ég kom fyrst til Íslands 22 ára og var ekki vön svona aðstæðum,“ segir Liselotte um ákvörðunina um að skilja og fara burt. Hún bætir við að það hafi líka verið krísur í sambandinu. „Ég ákvað á endanum að flytja aftur til Þýskalands. Ég kynntist líka öðrum manni heima á Íslandi, Herra Fuchs sem vann hjá sendiráðinu. Það var bara vináttusamband til að byrja með en svo segir hann mér að hann sé að fara til Þýskalands og það samræmdist mínum áætlunum.“

„Allt í einu er ástin farin, öryggið farið“

Maya man eftir þessum vendingum og hvað henni leist illa á blikuna. Hún fylgdi móður sinni í sendiráðið og leist illa á nýja manninn og minnist þess líka að verða vitni að rifrildum á lögfræðistofu, á milli foreldra sinna. Svo var tekin ákvörðun um að móðir hennar flytti til Þýskalands en Maya yrði eftir. „Það eru tvennar frásagnir, ég hef ekki fengið alveg frá mömmu um af hverju ég varð hér eftir. Hún sagði að hann hafi fengið forræði því hann var íslenskur ríkisborgari en ekki hún,“ segir Maya. En henni hefur líka verið tjáð að hún hafi sjálf fengið að ráða. „Þarna var ég níu ára gömul og sagði bara nei. Ég vissi að hún væri komin með annan mann og langaði ekkert að vera með henni og þessum manni í burtu frá vinum.“

En þegar Maya lítur um öxl í dag finnst henni ekki rétt að hafa verið látin taka slíka ákvörðun á þessum aldri. „Ég var bara barn og maður á kannski ekkert að spyrja svona ungt barn,“ segir Maya. Og móðir hennar fór. „Allt í einu er ástin farin, öryggið farið. Það er allt farið.“

Friðrik Agni Árnason ræddi við móður sína og ömmu í þættinum Ugla sat á kvisti á Rás 1. Þessi samantekt er úr fyrsta þætti af tveimur en það er hægt að hlýða á báða þættina hér í spilara RÚV.