Sýnir fram á getu íslensks sjávarútvegs

07.01.2022 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: velfag.com - Rúv
Rússneskt útgerðarfélag hefur keypt meirihluta í eyfirska fyrirtækinu Vélfagi. Annar stofnandi fyrirtækisins segir að aðkoma Rússanna sé nauðsynleg til að komast inn á rússneskan markað.

Tækifæri til að komast inn á rússneskan markað

Vélfag var stofnað 1995 og þróar og framleiðir vélar í fiskvinnslu fyrir stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Rússneska fyrirtækið, Norebo, hefur nú eignast 54,5 prósent hlut í Vélfagi. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Hjónin Bjarmi Arnfjörð Sigurgarðarsson og Ólöf Ýr Lárusdóttir eru stofnendur Vélfags. Ólöf segist fagna kaupum rússneska fyrirtækisins og segir þau veita Vélfagi tækifæri á að komast inn á hinn gríðarstóra rússneska markað.

„Það sem við sjáum svo mikil tækifæri í, að einmitt þessi kaupandi hefur svo mikla þekkingu á þörfum og framtíðarsýn sjávarútvegsins og okkur finnst þetta endurspegla raunverulega trú og traust sem er erlendis frá á getu íslensks sjávarútvegs í heild því að íslensku tæknifyrirtækin eru svo nátengd íslenskum sjávarútvegi,“ segir Ólöf.

Stórar hugmyndir um sókn á erlenda markaði

Ólöf segir að Vélfag hafi síðustu ár sótt á erlendan markað. Í Rússlandi felist mörg tækifæri vegna fyrirhugaðra breytinga þar í sjávarútvegi.

„Þannig að við höfum verið að stefna að því að koma okkur upp aðstöðu í Rússlandi. Það er bara vonlaust að fara inn á þann markað án þess að fyrirtæki séu þar staðsett með þjónustu og skrifstofu. Ég held að þessi aðkoma styrki Vélfag í að taka næsta skref sem var óhjákvæmilegt, að stækka og eflast og sækja enn frekar á erlenda markaði. Þannig að þið eruð með stórar hugmyndir? Já, það er óhætt að segja það.“

Anna Þorbjörg Jónasdóttir